135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

uppbót á eftirlaun.

547. mál
[16:50]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um uppbót á eftirlaun frá hv. efnahags- og skattanefnd sem er að finna á þskj. 1160. Á því þingskjali koma fram upplýsingar um gesti sem heimsóttu nefndina auk umsagna sem bárust nefndinni. Jafnframt er lýsing á frumvarpinu.

Nefndin bendir á að frumvarpinu er ætlað að rétta hag þeirra aldraðra sem verst eru staddir og lítið sem ekkert hafa greitt í lífeyrissjóð með tilheyrandi ávinnslu réttinda.

Fram kom í nefndinni að tekjur þess sem engan rétt á í lífeyrissjóði og engar tekjur hefur af atvinnu eða fjármagni og býr einn muni hækka um 12.584 kr. á mánuði fyrir skatt vegna skerðingar á tekjutryggingu og heimilisuppbót. Eftir skatt er um 8.089 kr. að ræða á mánuði. Verður þá enginn aldraður sem býr einn með lægri lífeyri og tekjur en 148.515 kr. á mánuði fyrir skatt. Fyrir hjón verður hækkunin samanlagt 19.818 kr. eftir skatt, þ.e. tæpum 20.000 kr. meira til ráðstöfunar á mánuði fyrir hjón sem hafa engar tekjur. Eftir samþykkt frumvarpsins verða engin hjón með lægri tekjur samanlagt en 252.970 kr. á mánuði fyrir skatt.

Rætt var í nefndinni hvernig fara ætti með það þegar sá sem öðlast hefur rétt til uppbótar á eftirlaun andast. Fram kom sá skilningur að eftirstandandi greiðslur á greiðslutímabili skuli falla niður við andlát og leggur nefndin til breytingartillögu þar að lútandi. Þá breytingartillögu er að finna á þingskjalinu.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson, Paul Nikolov, Jón Bjarnason, Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson og Ólöf Nordal.