135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:17]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er afar erfitt að dæma söguna núna 40–60 árum eftir að þessar símhleranir áttu sér stað. Kaldastríðstíminn var gjörólíkur okkar tíma og mörg okkar sem hér erum inni vorum ekki sinni fædd á þessum tíma.

Ég talaði við roskinn stjórnmálamann í dag til að reyna að skynja þennan tíma betur. Hann var staddur á Austurvelli 30. mars og hann lýsti fyrir mér þeim æsingi sem þá var og harkan var gríðarleg. Ég held að við mörg hver sem erum hér inni skynjum ekki hvernig ástandið var. Hann bætti því við af miklum þunga að ef menn hefðu komist inn í Alþingishúsið á þessum tíma hefðu alvarlegir atburðir getað átt sér stað, það var mjög mikill æsingur. Þetta skýrir svolítið hvernig stemningin var og því er mjög erfitt fyrir okkur að gerast miklir dómarar 40–60 árum seinna.

Til er skýrsla sem gerð var til að varpa meira ljósi á þetta mál og þar segir, með leyfi forseta:

„Í þessum sex tilfellum virðist málsmeðferðin hafa verið sú að lögreglustjóri hafði samband við ráðuneytisstjóra dómsmálaráðuneytisins sem skrifaði Sakadómi bréf um nauðsyn hlerunar. Aðeins í eitt skipti var það ráðherra sem skrifaði undir bréfið og var það Jóhann Þ. Jósefsson, settur dómsmálaráðherra, árið 1949.

Dómari heimilaði hlerun með dómsúrskurði. Allir heimildarmenn fullyrða að engar tengingar hafi átt sér stað fyrr en dómsúrskurðurinn lá fyrir.“

Einnig segir hér, virðulegur forseti, með tilvitnun:

„Ávallt var kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir áður en þær voru framkvæmdar.“

Miðað við þetta fóru ekki fram ólöglegar hleranir en menn velta fyrir sér hvort lögreglan sem fór með hið faglega mat hafi ávallt haft öryggi ríkisins að leiðarljósi. Miðað við hvernig ástandið var má ætla að svo sé en fólkinu sem var hlerað og afkomendum þeirra líður að sjálfsögðu illa. Það er mjög alvarlegt þegar menn upplifa að ráðist er inn í einkalíf þeirra (Forseti hringir.) og ef fram kemur krafa um að þessi mál verði rannsökuð frekar tel ég eðlilegt að við skoðum þá kröfu með opnum huga.