135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:23]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er grein sem Kjartan Ólafsson birti í Morgunblaðinu í gær. Þar er að finna lista yfir 32 heimili sem hleranir beindust að á sínum tíma. Það er það raunar það eina nýja sem kom fram í þessari grein, allt annað sem menn hafa verið að ræða í þessu samhengi kom fram í rannsóknum dr. Guðna Th. Jóhannessonar eða skýrslu þeirrar sérfræðinganefndar sem ríkisstjórnin skipaði vorið 2006.

Vegna ýmiss konar fullyrðinga sem hafðar hafa verið uppi í þessari umræðu er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Í fyrsta lagi hefur Alþingi, samkvæmt tillögum fyrri ríkisstjórnar, þegar tekið á þessu máli með því að skipa nefnd til að fjalla um þau gögn sem hér eru til umræðu. Alþingi samþykkti síðan í framhaldinu mjög opinn aðgang fræðimanna að þessum gögnum. Það byggði að sjálfsögðu á því viðhorfi að umfjöllun um þessa löngu liðnu atburði væri viðfangsefni sagnfræðinga og annarra fræðimanna, ekki stjórnvalda eða stjórnmálamanna dagsins í dag. Skýrsla þessarar nefndar er mjög athyglisverð og það væri æskilegt að þingmenn læsu hana áður en þeir hafa uppi málflutning eins og við höfum heyrt dæmi um í dag.

Engar upplýsingar hafa komið fram um að ekki hafi verið farið að lögum í sambandi við þær hleranir sem hér um ræðir. Það liggur fyrir (Gripið fram í.) að engar upplýsingar eru til um að hleranir hafi verið framkvæmdar án þess að dómsúrskurðar væri leitað. Það liggur líka fyrir að um lögregluaðgerðir var að ræða vegna ótta við óspektir eða önnur lögbrot í tilteknum afmörkuðum tilvikum og ekkert bendir til að hlerað hafi verið lengur en tilfefni var til. Slíkar lögregluaðgerðir kunna vissulega að vera umdeildar þegar þær eru skoðaðar í sögulegu ljósi, ekki síst 40–60 árum eftir að þær fóru fram. Að sjálfsögðu verða menn að hafa í huga heildarmyndina, t.d. varðandi hættumat lögreglu og aðrar aðstæður sem uppi voru á þeim tíma.

Varðandi stöðu mála í dag (Forseti hringir.) liggur líka fyrir að lagaumhverfið er breytt að mörgu leyti og síðar í dag eða á morgun munum við ræða frumvarp til laga um sakamál þar sem m.a. er fjallað um þetta. Hins vegar liggur fyrir (Forseti hringir.) að sú meginbreyting hefur orðið að nú ber að tilkynna mönnum eftir á um hleranir þegar rannsókn er lokið og (Forseti hringir.) eyða skal gögnum með hliðsjón af persónuverndarsjónarmiðum þegar rannsókn er lokið.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta að tímanum.)