135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:31]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ekki fer á milli mála að aðgerðir til hlerunar á einkaheimilum voru lögmætar. Það sem kemur mér kannski mest á óvart eru ekki nöfn þeirra sem voru hleraðir heldur hitt að í engu tilvika hafa verið dregnar fram upplýsingar um að nokkur ástæða hafi verið til að hlera þessa menn. Í engu tilvika, sem mér er kunnugt um, leiddu hleranirnar til þess að viðkomandi einstaklingar væru ákærðir fyrir refsivert athæfi. Í engu tilvika komu fram upplýsingar um að þessir menn væru að efna til aðgerða sem stönguðust á við lög eða að þeir væru að gera eitthvað sem rökstyddi þær grunsemdir sem lágu að baki beiðni um hlerun frá lögreglu og dómsmálaráðherra. Niðurstaðan er þessi: Aðgerðirnar voru tilefnislausar. Grunsemdir um refsiverðan verknað af hálfu þessara einstaklinga voru ekki á rökum reistar. Þetta voru heiðarlegir Íslendingar sem skáru sig frá öðrum, yfirvöldum, á þann eina hátt að þeir höfðu aðrar pólitískar skoðanir.

Hér er sagt, og það er rétt, að þetta hafi verið lögregluaðgerðir. Ég spyr: Að hve miklu leyti var þessi lögregluaðgerð byggð á pólitískum sjónarmiðum? Það er kannski erfitt að svara því í dag því að nú eru aðrir tímar. En hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt sitt af mörkum til þess að kynna fyrir okkur hugarheim manna fyrr á árum og það er að sumu leyti lofsvert að við fáum að sjá inn í þann hugarheim. Það er líka nauðsynlegt, virðulegi forseti, að við förum að losa okkur við þann hugarheim svo að íslenska þjóðin geti sett þetta aftur fyrir sig.