135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:33]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Ræða hæstv. dómsmálaráðherra vekur mig til umhugsunar og veldur mér vonbrigðum og áhyggjum í senn. Ég hélt að kalda stríðinu væri lokið þar til ég heyrði ræðu hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég hóf þessa umræðu á því að segja að við hefðum ekki þörf fyrir að leita uppi sökudólga frá liðinni tíð. En að ráðherrann vegi hér að nafngreindu látnu fólki og fjarstöddu, fyrrverandi alþingismönnum og ráðherrum, sem þingmenn úr öllum flokkum hafa risið úr sætum fyrir til að þakka þeim störf hér á þessum vettvangi — ja, um það verður að segja að ráðherrann verður að ráða sóma sínum sjálfur.

Þetta er lítill bær, við erum öll frændur og vinir. Að draga upp þá mynd af þessu fólki að þar hafi farið glæpa- og ofbeldissamtök er fjarri öllu lagi. Hér fóru heiðarlegir Íslendingar sem á hverjum tíma reyndu að berjast fyrir betri heimi eftir sannfæringu sinni eins og hún var, rétt eins og við öll í þessum sal og hæstv. dómsmálaráðherra meðtalinn. Ráðherrann vísar til þess að þetta hafi verið gert að ósk lögreglu. Þess sér ekki stað í gögnum málsins og þeim orðum sínum verður hann að finna stað því að aðeins í einu tilviki er vísað til óska lögreglunnar. Ég held að þessi umræða kalli því miður á að við vinnum málið áfram. Ég held að rannsóknin og nefndarskipunin hafi verið farsæl skref en eftir á að hyggja er það kannski rangt og ósanngjarnt að ætlast til þess að hæstv. dómsmálaráðherra hafi fyrirsvar fyrir þessum gögnum.