135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:35]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég skorast ekki undan því að taka þátt í umræðum um þessi mál, síður en svo. Ég hef gert það í marga áratugi, kynnt mér gögnin betur, held ég, en flestir þingmenn hér inni og veit nákvæmlega um hvað ég er að tala þegar ég fjalla um þessi mál. Ef ekki má rifja upp sögulegar staðreyndir hér af atburðum sem gerðust í þessum þingsal þegar þessi mál eru rædd finnst mér hræsnin vera orðin of mikil í umræðum á hinu háa Alþingi.

Ég hef staðið að því hvað eftir annað að hvetja til þess að þessi mál séu upplýst. Ég hef staðið að tillögum og unnið að því sem ráðherra og mun halda áfram að vinna að því að upplýsa þessi mál eins og frekast er kostur. Ekkert nýtt hefur komið hér fram en ljóst er að menn draga mismunandi ályktanir af þeim staðreyndum sem liggja fyrir. Gott og vel og það er sjálfsagt að menn geri það eins og í sagnfræði almennt. Ekkert hefur komið fram sem segir okkur að lögbrot hafi verið framin á einstaklingum eða að farið hafi verið á svig við lög af yfirvöldum í þessum málum. Það staðfestir það sem fram hefur komið í öllum gögnum til þessa. Menn geta haldið áfram og sett á laggirnar fleiri nefndir. Ég fullyrði: Það kemur ekkert fram sem sýnir að ólöglega hafi verið staðið að málum.

Menn geta deilt um hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt. Á þeim tíma sem menn stóðu að þessum aðgerðum, fóru með það fyrir dómara — þar var samþykkt að gera þetta og menn verða að hafa það í huga og geta síðan dregið sínar ályktanir.

Herra forseti. Þetta eru ágætar umræður. Þær skila okkur ekki öðru en því að menn lýsa skoðunum sínum. Þær breyta ekki þessum staðreyndum og leiða ekki til annars en að þingmenn, ætla ég að vona, eru upplýstir um hvað gerst hefur í þessum þingsal og hvað menn hafa sagt á þessum stað. Víst má rifja það upp eins og allt annað sem hér gerist.