135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:16]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að hafa svarað að mestu leyti með greinargóðum hætti þeim spurningum sem ég beindi til hans. Orðalag frumvarpsins varðandi maka eða sambúðarmaka liggur fyrir. En það sem olli því að ég spurði þeirra spurninga sem um er að ræða var það sem segir í nefndarálitinu, þ.e. að jafnframt skyldi skoðuð eigendasaga maka eða sambúðaraðila makans. Þá veltir maður því fyrir sér og það var kjarninn í spurningu minni, hvaða þýðingu eigendasaga hefur. Getur hún ráðið því að einhverju leyti að aðili sem annars ætti rétt á því að stimpilgjaldið félli niður þurfi að sæta því að greiða fullt stimpilgjald vegna þess að eigendasagan er þessi, þó að þetta hafi kannski verið fyrir einhverjum tíma o.s.frv.? Það var inntakið í spurningunni.

Það kann vel að vera að ákvæði b-liðar 1. gr. sé nægjanlegt að þessu leyti þar sem segir að kaupandi íbúðarhúsnæðis og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, skuli vera þinglýstur eigandi að að minnsta kosti helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er. (Gripið fram í: 3. mgr.) Fyrirgefðu, 3. mgr. þar sem maki kaupanda skuldara eða sambúðaraðili hafi áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur o.s.frv.

Það kann vel að vera að talið sé að það sé nægilega greint hvað þar er verið að fjalla um. En þetta er óeðlilegt ákvæði vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það er löngu liðin tíð að hjónabönd endist í 100% tilvikum út ævina eða þess vegna sambúð. Þar af leiðandi býður þetta upp á alls konar misnotkun og hugsanlegt óréttlæti. En það er annað mál og skal ekki lengur dvalið við það.

Hv. þm. Pétur Blöndal segist vera sammála um að það beri að afnema stimpilgjald og hann hafi verið sammála því um árabil. Ég er ánægður að heyra það og við erum þá sammála um það eins og svo margt fleira, ég og hv. þm. Pétur Blöndal. En síðan kemur alltaf að þessu að þegar þensla sé á fasteignamarkaði, þegar þensla sé í þjóðfélaginu þá megi ekki draga úr umsvifum ríkisvaldsins og þá megi ekki minnka skatta. Þessari hagfræði er ég gjörsamlega ósammála því að þensla á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu er ekki þensla á fasteignamarkaði á Íslandi. Þenslan var aðallega á höfuðborgarsvæðinu en víða um land var hins vegar engin þensla og mjög takmörkuð verðhækkun á fasteignum. Það var ekkert tillit tekið til þess. En það er engin þensla og þá verða menn að átta sig á einu og mér finnst satt að segja miður að það skuli ekki hafa verið skoðað vegna þess að við höfum sögu um það hvernig efnahagslægðir koma yfir íslenskt samfélag, hvernig byggingariðnaðurinn þróast og hvernig kulið á markaðnum þróast að gefnum ákveðnum forsendum. Það sem gerist er að kulið kemur fram hægt og tekur langan tíma með sama hætti tekur það hjólin á byggingarmarkaðnum, eftir slíkt samdráttarskeið, töluvert langan tíma að komast á fullan skrið.

Það er hægt að fullyrða það og við það stend ég að það sé verulegt samdráttarskeið á fasteignamarkaðnum sem er fyrirsjáanlegt þó að framkvæmdir hafi í sjálfu sé staðið með ákveðnum blóma hingað til vegna þess að þær voru fyrirhugaðar og komnar í gang löngu áður. Það er eingöngu þess vegna. En það er hægt að kynna sér ástandið á markaðnum til að komast að niðurstöðu um að það er mjög alvarlegt ástand að skapast í byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu og ég tel að það væri full ástæða fyrir stjórnvöld að hlúa að þeim markaði, huga að því að veita fjármagn til þess að þarna verði ekki um stöðnum og alkul að ræða, m.a. að beita þeirri skattalækkun sem möguleiki er t.d. og hér er verið að fjalla um að fella stimpilgjaldið niður algjörlega. Það er ein leið.

Þá segir hv. þm. Pétur Blöndal að erlendir aðilar mundu líta á það alvarlegum augum ef við færum nú að lækka skatta. Þetta kemur mér satt að segja ákaflega mikið á óvart. Við erum jú einu sinni frjáls og fullvalda þjóð og höfum því rétt á og möguleika til þess að taka ákvarðanir um það hvernig við högum skattheimtu í landinu. Ég get ekki séð hvaða erlendu aðilar það ættu að vera sem mundu fara að vandræðast eða telja að íslenskt efnahagslíf væri í ógöngum ef reynt væri að sporna við kólnun á markaðnum, spýta inn í til þess að um virkari framkvæmdir verði að ræða, meiri atvinnu og auknar tekjur, að einhverjir erlendir aðilar hefðu eitthvað við slíka hagstjórn að athuga. Ég hygg nú frekar að það væri meiri ástæða til þess að ætla að erlendir aðilar mundu telja að það væri alvarlegur hlutur að gerast ef einn mesti og stærsti atvinnuvegurinn sem veitir hvað flestum vinnu væri kominn að stöðvun. Ég hygg að þeir menn sem hafa samskipti við Ísland í fjármálalegu tilliti mundu frekar kippast við ef svo væri. Ég álít því að sú niðurstaða sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kemst að sé röng, þ.e. að röksemd fyrir því að fella stimpilgjaldið algjörlega niður sé einmitt sú að hér sé eðlilegt og blómlegt atvinnulíf og framkvæmdir og hvernig þróunin er að verða og þá í framhaldi af því hvernig erlendir aðilar litu á þessa hluti.

Varðandi ábyrgð sýslumanna þá vék ég að því að aðeins einn sýslumaður hefur komið fyrir nefndina og hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Pétur Blöndal alþingismaður, sagði að það hefði hverjum og einum nefndarmanni verið frjálst að hafa samband við hvern þann sýslumann sem viðkomandi nefndarmaður hefur kosið eða (Gripið fram í: … óskað eftir.) óskað eftir. Ég skal ekkert segja um það en það er nú einu sinni þannig að ég tel að það sé eðlileg málsmeðferð hjá nefnd eins og efnahags- og skattanefnd að kalla eftir umsögnum þeirra sem helst hafa með þau mál að gera sem viðkomandi frumvarp fjallar um. Ég hefði þar af leiðandi talið eðlilegt og sjálfsagt og nauðsynlegt að það hefði verið kallað eftir umsögnum allra sýslumanna í landinu vegna þess að þeir hafa jú með framkvæmd þess frumvarps eða þeirra laga sem hér kunna að verða samþykkt að gera og bera ábyrgð á þeim.

Það var í sjálfu sér meiri ástæða til þess að kalla þá fyrir heldur en flesta aðra. En það er látið við það eitt við sitja að kalla á sýslumanninn í Hafnarfirði og ég er ekki að gera lítið úr því embætti og ég veit ekki hvort ástæðan var væntanlegt afmæli Hafnarfjarðar en a.m.k. finnst mér mjög sérstakt að kalla ekki eftir umsögnum sýslumanna, t.d. sýslumannsins í Reykjavík þar sem flestum kaupsamningum er þinglýst, sýslumanninn á Akureyri eða á Ísafirði þannig að það sé fenginn ágætisþverskurður á hvað varðar embætti þeirra sem eiga að hafa með framkvæmd þessara laga að gera. Ég verð satt að segja að lýsa yfir furðu að það skuli ekki gert.

Í lokin, virðulegi forseti. Ég hef lýst því yfir að ég tel að það væri eðlilegt að stimpilgjaldið af kaupum á húsnæði væri algjörlega fellt niður. Svo virðist sem lengra verði ekki komist en það sem hér er um að ræða. Þar af leiðandi hlýt ég að greiða atkvæði með þeim breytingum sem hér eru lagðar til en ég tel að allt of skammt sé gengið.