135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar SÞ.

[20:10]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki þurft að toga eða teygja þetta mál á nokkurn hátt. Það hefur margoft komið fram hjá mér að ég hef haft á því áhuga að geta kynnt niðurstöðu af þeirri vinnu sem ég hef verið að láta vinna fyrir Alþingi ef tóm væri til þess. Ég lýsti þessu yfir fyrir fáeinum vikum í síðasta skipti og hv. þm. Guðni Ágústsson vitnaði einmitt til þess í ræðu í gær eða fyrradag til þeirra yfirlýsinga minna.

Við höfum verið að láta vinna þetta mjög vandlega. Þetta er mál sem ekki er hægt að kasta til höndum. Þetta er mál sem við höfum tekið alvarlega og við sýnum það m.a. með því að við höfum verið að láta vinna lærða greinargerð til þess að leggja til grundvallar því svari sem ríkisstjórnin mun síðan senda til mannréttindanefndarinnar.

Þetta mál hefur komið margoft til umræðu. Það eru öllum ljósar skoðanir hv. þingmanna í þessum efnum og það höfum við alveg í huga. En eins og ég hef margoft sagt er málið á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hún mun sjá til þess að fullnægjandi svar berist á tilsettum tíma (Forseti hringir.) sem er 11. júní.