135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[20:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Sú grein sem verið er að greiða atkvæði um er lögð til af nefndinni sjálfri og fjallar um samruna sparisjóða við önnur fyrirtæki. Hún vefst nokkuð fyrir mér þessi orðanna hljóðan: „samruni sparisjóðs við fyrirtæki“. Það hugtak er almennt ekki til varðandi sparisjóði að þeir geti runnið saman við önnur fyrirtæki. Orðanna hljóðan er því mjög óljós og ekki í takt við hina almennu lagasetningu um sparisjóði.

Herra forseti. Ég get því ekki stutt þetta að svo stöddu. Ég mun óska eftir því að málið verði unnið betur milli 2. og 3. umr. í hv. viðskiptanefnd. Það má alls ekki vera tilgangurinn hér að koma því þannig fyrir að skapa réttaróöryggi varðandi starfsemi sparisjóðanna. Ef sparisjóður er að taka yfir útibú annarra banka úti um land er það yfirleitt frekar lítil eign því að bankarnir eru jú að loka útibúum sínum. Yfirleitt þegar banki lokar útibúi er lítil eign eftir þannig að sparisjóðirnir taka þá yfir starfsemina. Það hefur verið reynslan þar sem þetta hefur verið. (Forseti hringir.) Þess vegna set ég vara við það orðalag að sparisjóður geti runnið saman við fyrirtæki, eins og þarna er verið að leggja til.