135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[20:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um lokafjárlög vegna ársins 2006. Þegar er búið að ganga frá ríkisreikningi fyrir árið 2006 þannig að þessi afgreiðsla er ekki í takt við fjárreiðulög. Samkvæmt lögum á að afgreiða ríkisreikning og lokafjárlög saman.

Það sem þarna er verið að taka fram í lokafjárlögum, eins og kom fram í umræðunum hér, er orðinn hlutur. Þetta er nokkurs konar stimpill af hálfu Alþingis á gjörðir framkvæmdarvaldsins. Þess vegna sitjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hjá við þetta frumvarp en áteljum vinnubrögðin sem að baki því standa. Þarna eru tilgreindar upphæðir sem ekki eiga heima í lokafjárlögum (Forseti hringir.) og auk þess eiga lokafjárlög og ríkisreikningur að fylgjast að.