135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

endurskoðendur.

526. mál
[21:03]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég stend að nefndaráliti því sem hér er til umræðu með félögum mínum í efnahags- og skattanefnd en geri, eins og fram hefur komið, fyrirvara við álitið. Ég ætla ekki að endurtaka þann fyrirvara sem ég deili með hv. þm. Bjarna Benediktssyni, sem hann greindi frá á undan mér sem varðar málsmeðferð við innleiðingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar en tek undir þau sjónarmið sem þingmaðurinn reifaði hér að framan.

Annað atriði sem ég geri fyrirvara við sem er raunar einungis tilgreindur á því máli sem við munum taka næst til afgreiðslu, ársreikningafrumvarpið, en ég vil gera þann fyrirvara einnig við þetta og ætlaði mér raunar að gera það en það hefur eitthvað skolast til í nefndarvinnunni. Þar sem við ræðum þessi mál samhliða ætla ég að fá, með leyfi forseta, að fara yfir þann fyrirvara. Það varðar það atriði að fella skuli lífeyrissjóðina undir hugtakið einingu tengda almannahagsmunum. Ég er ekki fyllilega sannfærð um þörfina á að gera þetta og tel að fulltrúar lífeyrissjóðanna hafi, þegar þeir komu fyrir nefndina, gert vel grein fyrir því margháttaða eftirliti sem þeir undirgangast nú þegar. Einnig benda þeir á það að þarna séum við að ganga lengra en Evróputilskipunin gerir ráð fyrir og erum því, eftir því sem mér skilst, að setja lífeyrissjóðum okkar strangari reglur og kvaðir en gerist annars staðar. Ég held að við þurfum að fara varlega í slíkt og passa okkur, eins og þeir benda á, að við gerumst ekki kaþólskari en páfinn í þessum efnum og vil því fara varlega í málið. Ég mundi vilja að við skoðuðum þetta betur og óska því eftir að frumvarpið verði tekið aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. þannig að við getum farið betur yfir þennan þátt málsins og vonandi skýrt hann svo að hægt verði fyrir okkur að aflétta þeim fyrirvara fyrir lok afgreiðslu málsins.