135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

ársreikningar.

527. mál
[21:06]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og skattanefnd, en það er að finna á þskj. 1051.

Í því þingskjali kemur fram hvaða gesti nefndin fékk til sín og hvaða umsagnir bárust og einnig er lýsing á frumvarpinu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„1. málsl. 2. mgr. a-liðar 2. gr. orðist svo: Stjórn einingar ber ábyrgð á skipun endurskoðunarnefndar.“

Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ögmundur Jónasson gera fyrirvara við álitið. Fyrirvarar Bjarna og Ragnheiðar varða málsmeðferð við innleiðingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ragnheiður gerir einnig fyrirvara við að fella lífeyrissjóði undir hugtakið eining tengd almannahagsmunum.

Hv. þingmenn Gunnar Svavarsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara, Bjarni Benediktsson, með fyrirvara, Magnús Stefánsson, og Ragnheiður E. Árnadóttir, með fyrirvara.