135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:34]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nú eiginlega ekki andsvar. Þetta var eiginlega meðsvar þannig að ég get illa svarað því. En við reifuðum það í nefndinni að boðið yrði upp á eins konar lotterí eins og sumar þjóðir gera þar sem ákveðnum og mjög takmörkuðum hópi fólks yrði leyft að koma til landsins þótt þeir séu ómenntaðir og þótt þeir skari ekki fram úr í íþróttum.

Það er spurning um hvort menn vinni áfram að því að taka upp einhvers konar blátt eða grænt kort þar sem kannski 50 manns gætu komið til Íslands árlega og fengju að auðga landið með þekkingu sinni, visku og íþróttalegum hæfileikum ef þeir fengju að njóta sín. (Gripið fram í.)