135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn eigi að halda áfram, eins og hv. þingmaður nefndi, að ræða þessa hluti og leitast við að ná samkomulagi um útfærslu á leið til þess að opna einhverja leið fyrir ófaglært fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Við njótum góðs af því fólki rétt eins og þeim sem eru hæfileikaminni á sviði íþrótta eða þeim sem eru vel menntaðir og geta lagt fram sinn skerf í störfum sínum við háskóla eða atvinnufyrirtæki. Við skulum vera þess minnug að í málefnum flóttamanna hafa Íslendingar ekki tekið við mörgum íbúum á undanförnum árum. Síðustu tíu, tólf ár hafa það verið innan við 30 manns á ári. Það hefur verið tekið móti um tíu hópum á tólf árum og samtals um 300 manns. Það er mjög fátt fólk á þann mælikvarða sem margar Evrópuþjóðir hafa í þessum efnum. Ef við ætlum okkur að gera jafn vel í þeim efnum og þær þá þyrftum við að margfalda framlag okkar til þessa. Við þurfum ekki endilega að einskorða okkur við flóttamenn heldur getum við haft þetta opið fyrir íbúa utan Evrópska efnahagssvæðisins. Við gætum þá með miklum sóma tekið við nokkrum hópum fólks á hverju ári sem væri að mörgu leyti hægt að líta á sem framlag okkar til mannúðar- og hjálparstarfa.