135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs fyrst og fremst til að gera grein fyrir fyrirvara sem ég setti við nefndarálit sem fylgir þessu frumvarpi. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni þegar við 1. umr. málsins en fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að 6. gr. frumvarpsins þar sem er heimild til þess að veita atvinnuleyfi fólki utan EES-svæðisins sem býr yfir sérþekkingu, sérfræðiþekkingu á sviði háskóla-, iðn-, list- eða tæknimenntunar. Þetta er tíundað hér í greinargerð um 6. gr. og segir þar, með leyfi forseta:

„Meginreglan er sú að atvinnurekandi leitist við að ráða starfsfólk sem þegar hefur aðgengi að íslenskum vinnumarkaði, samanber a-lið 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins, en gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði heimilt að víkja frá því skilyrði þegar um er að ræða umsóknir um atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast háskólamenntunar. Með háskólamenntun er átt við að útlendingur hafi lokið námi við háskóla sem svarar a.m.k. til þriggja ára grunnnáms sem lýkur með BA- eða BS-prófi við íslenskan háskóla.“

Það er tvennt sem ég vil nefna í þessu sambandi. Annað lýtur að fátækum ríkjum sérstaklega. Ég nefni heilbrigðisþjónustuna sem á víða við mikla erfiðleika að etja vegna þess að fólkið flýr til hinna ríkari landa. Ég get ekki sagt nákvæmlega til um hver manneklan er í þróunarríkjunum og fátækum ríkjum Afríku og sumum Asíuríkjum en ég man ekki betur en að hún skipti milljónum starfsmanna sem þá margir hverjir, kannski ekki allur sá fjöldi, hefur flúið eða leitað atvinnu í ríkari löndum heimsins. Þetta er fólkið sem við erum að sækjast eftir með því að opna lögin að þessu leyti.

Hitt finnst mér miklu verra og ekki síður slæmt að við skulum mismuna fólki á þennan hátt, þ.e. að það eigi að skoða hvaða gráður og stimpla fólk hefur upp á vasann áður en það fær heimild til að koma hingað til lands og vinna. Það er tilgreint hér í háskólagráðum hverjum eigi að hlotnast slík hlunnindi.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals enda höfum við keppt um það í umræðu um þetta mál að taka undir hvor með öðrum. Við gerðum það við 1. umr. um málið en ég kom í pontu og kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að gera grein fyrir þessum fyrirvara mínum við frumvarpið.