135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:41]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil halda því til haga að útlendingar gegna veigamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem hefur ríka þörf fyrir starfskrafta þeirra. Þeir gegna að mörgu leyti lykilhlutverki í fiskvinnslu, á sjúkrahúsum og á ýmsum þjónustustofnunum. Þá liggur það fyrir að útlendingar hafa auðgað menningarlíf þjóðarinnar og skapað þá fjölbreytni sem öllum þjóðum er nauðsynleg, fjölmenningarsamfélag sem auðgar menningu okkar. Útlendingar skipta enn fremur miklu máli fyrir efnahag og menningu þjóðarinnar en ég tel að þeir hafi ekki verið og séu ekki enn virtir að verðleikum í íslenskri löggjöf.

Ég hef stundum haldið því fram að þeim sé í ýmsum tilvikum tekið hér á landi sem óvelkomnum gestum og að þeim sé að hluta til búin dvalarskilyrði sem standast illa mannréttindi. Það er afar mikilvægt að löggjafarvaldið fylgist vel með þeim vandamálum sem útlendingar sem hingað flytjast glíma við og bregðist jafnan við því með endurskoðun laga.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur margsinnis á undanförnum árum lagt fram frumvörp til að bæta réttarstöðu útlendinga hér á landi. Við lögðum fram frumvarp á 130. löggjafarþingi 2003–2004 þar sem við fórum í að skilgreina atvinnuleyfi á nýjan leik. Við vildum að tímabundið atvinnuleyfi yrði veitt útlendingi en ekki atvinnurekanda og bundum það við starfsgrein og að útlendingur mætti ráða sig til nýs atvinnurekanda ef starfslok yrðu.

Við bentum sérstaklega á það vandamál sem varðar einkum eða eingöngu konur sem giftast hingað til lands og lenda í ofbeldissambandi. Þessar hugmyndir og þetta frumvarp hafa verið endurflutt margsinnis og nú síðast í vetur af hv. þm. Paul Nikolov og fleiri þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar er líka tekið á vandamálum sem snúa að framfærslu barna útlendinga og þeim sem snúa að réttindum barna sem koma hingað t.d. 15 ára gömul og verða að ná 18 ára aldri — tengsl þeirra við réttindasókn foreldra sinna slitna og þau byrja að mynda réttindi á sjálfstæðum grundvelli sem hefur orðið þeim mjög mörgum til trafala. Flest börn, 18 ára og fram að þrítugsaldrinum, eru jú við nám á þeim tíma.

Við höfum sagt að atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda til að ráða útlending til starfa feli í sér eins konar vistarband í anda átthagafjötra fyrri alda og það samrýmist ekki mannréttindahugsun nútímans. Í krafti slíks atvinnuleyfis er atvinnurekanda veitt staða húsbónda gagnvart hjúi. Komi til starfsloka útlendings með tímabundið atvinnuleyfi vofir yfir honum brottvísun úr landi eins og mara, samþykki atvinnurekandinn ekki starfslok hans.

Það er reynsla stéttarfélaga og það er mín reynsla í starfi fyrir stéttarfélög í meira en aldarfjórðung að útlendingar í þessari stöðu neyðist oftar en ekki til að sætta sig við alvarleg brot á kjarasamningum og ráðningarsamningum bæði hvað laun varðar og önnur starfskjör. Þeir leita sjaldnar til stéttarfélaga og vilja sem minnst gera úr mismununinni hafi stéttarfélagið frumkvæði að því að kanna launakjör þeirra og stöðu að öðru leyti. Það var þess vegna sem við skilgreindum atvinnuleyfið upp á nýtt og það var þess vegna sem við vildum að atvinnuleyfið bæri bundið við útlendinginn en ekki atvinnurekandann. Og við lögðum líka til og leggjum enn til að komi til slíkra starfsloka geti útlendingur með tímabundið atvinnuleyfi leitað vinnu annars staðar, hjá öðrum atvinnurekanda.

Við höfum skoðað vel réttarstöðu kvenna í ofbeldissambúð og lagt til að þar yrði veitt undanþáguheimild ef slíkt kæmi upp. Það eru allt of mörg dæmi um að erlendar konur sæti ofbeldi í hjónabandi og komi til skilnaðar eru þeim flestar bjargir bannaðar. Það eru dæmi um að makar þeirra hafi skákað í því skjóli í sambúðinni að sambúðarslit leiddu sjálfkrafa til brottvísunar úr landi. Ég hef þess vegna haldið því fram að þessar konur væru í gíslingu hjónabands og ofbeldis.

Margar þessara kvenna hafa brennt allar brýr að baki sér í heimalandi sínu og eiga ekki að neinu að hverfa vegna menningar þess lands. Við fengum þær upplýsingar líka að konur af útlendu bergi brotnar komi mun tíðar hlutfallslega, leiti mun tíðar til Stígamóta og Kvennaathvarfsins en íslenskar konur og hlutfallið er talsvert miklu hærra en hlutfall þeirra hér á landi.

Í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er stigið skref í átt til þess að atvinnuleyfið sé gefið út á nafn útlendings en meiri hluti nefndarinnar treystir sér ekki til að taka skrefið til fulls, ganga alla leið, og segir orðrétt í nefndarálitinu, með leyfi frú forseta:

„Tímabundin atvinnuleyfi eru þó skilyrt starfi hjá tilteknum atvinnurekanda. Hugmynd kom um tengingu atvinnuleyfis við ákveðna atvinnugrein eða landshluta í stað atvinnurekenda en nefndin telur slíkt skapa ákveðið óöryggi fyrir starfsmanninn þar sem mögulegt er að hann fái útgefið tímabundið atvinnuleyfi án þess að hafa vinnu fyrir komu til landsins auk þess sem slíkt samræmist illa markmiðum laganna.“

Ég hefði kosið að nefndin gengi alla leið í þessum efnum. Þegar sambærilegt mál, þ.e. frumvarp um útlendinga, kom til umfjöllunar í allsherjarnefnd skorti þessi ákvæði sem ég hef hér gert að umtalsefni og þær breytingar sem við vildum sjá í lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Ég sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar –græn framboðs í allsherjarnefnd barðist fyrir því að þessu yrði breytt. Það er mér því mikið fagnaðarefni að það náði fram að ganga með samþykki dómsmálaráðuneytisins að breyta reglum um stöðu ungmenna sem verða 18 ára á grundvelli fjölskyldusameiningar þannig að þegar barnið verður 18 ára fylgir það réttindum foreldra. Ég verð að hrósa bæði allsherjarnefnd og félagsmálanefnd fyrir að hafa tekið þetta inn í frumvarpið. Það er mikið fagnaðarefni fyrir mig sem hef í ein fjögur, fimm ár barist fyrir þessu, að þetta skuli hafa náð fram að ganga.

Ekki síður fagna ég þeirri breytingu sem gerð hefur verið bæði á frumvarpi að lögum um útlendinga og þessum lögum sem eru til umræðu að hér er veitt heimild til að gera undanþágu fyrir konur sem búa í ofbeldissambúð. Þetta eru því mikil framfaraspor og þó að ég hefði viljað ganga talsvert mun lengra þá fagna ég öllu sem horfir til bóta í þessum efnum.

Ég hefði svo sem kosið að sjá fleiri breytingar gerðar á frumvarpi um atvinnuréttindi útlendinga. Við, hv. þm. Paul Nikolov og ég, höfum sett fram talsvert margar breytingar við frumvarp að lögum um útlendinga sem einhverjar hefðu mátt fara hér inn. Þar nefni ég sérstaklega framfærslu og fleira í þeim efnum. En erindi mitt hér í ræðustól var fyrst og fremst þó að fagna þeim jákvæðu skrefum sem hér hafa verið tekin.