135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til 2010.

534. mál
[22:29]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga, árið 2010.

Þessi áætlun var tekin fyrir í félags- og tryggingamálanefnd og kallaði nefndin til sín nokkra aðila auk þess sem við fengum umsagnir frá fjölmörgum aðilum.

Tillagan felur í sér samþykkt framkvæmdaáætlunar til tveggja ára í barnaverndarmálum til að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Þá má taka fram að þetta er í fyrsta sinn sem lögð er fram heildstæð framkvæmdaáætlun í þessum málaflokki og er hún gerð með vísan í 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, sem kveður á um að félagsmálaráðherra skuli leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum.

Helstu atriði sem lögð er áhersla á með tillögunni eru aðgerðir til eflingar barnavernd á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu sem og að efla þjónustu og verklag. Til að ná þessu fram felur tillagan í sér ýmis verkefni varðandi rannsóknir, þróun, ný meðferðarúrræði, námskeið, árangursmat, erlent samstarf, skjalastjórnun og tölfræði — það er sem sagt í þessari ítarlegu tillögu sem lögð er fram. Nefndin vekur athygli á að framkvæmdaáætlunin er fyrst og fremst um aðgerðir ríkisvaldsins, þ.e. félags- og tryggingamálaráðuneytis og annarra fagráðuneyta og Barnaverndarstofu, til að bæta framkvæmd og eftirlit með barnavernd.

Nefndin telur mjög jákvætt að þessi áætlun er lögð fram en í umræðunni var gerð athugasemd við með hvaða hætti ætti að leggja slíka áætlun fram. Um er að ræða þingsályktunartillögu en tillagan er byggð þannig upp að fyrst og fremst er um að ræða lista yfir málin og síðan ítarlegri skýringar í athugasemdum og taldi nefndin að fjalla þyrfti um það sérstaklega og skoða við gerð næstu áætlunar að koma meiru af skýringum inn í sjálfa þingsályktunina, gera hana almennari þar sem nefndin taldi sér ekki fært að taka afstöðu til einstakra úrræða eða uppeldisaðferða eins og þar er gerð grein fyrir heldur verði það framkvæmdarvaldsins og þá nefndarinnar og löggjafarvaldsins að hafa eftirlit með að staðið væri við meginatriðin. Það er inntakið í okkar umsögn, ég ætla ekki að lesa hana í öllum meginatriðum. Það er sem sagt líka ákvæði um að þess skuli gætt almennt við framkvæmdina að aðilar eins og Barnaverndarstofa og þeir sem eigi að sjá um framkvæmdir á áætluninni séu ekki bæði eftirlitsaðilar að verkum og framkvæmdaraðili.

Nefndinni barst fjöldi umsagna þar sem kom fram ánægja með áætlunina ásamt því að gerðar voru nokkrar athugasemdir við einstaka framkvæmdarhluta hennar. Þá var í nokkrum þeirra bent á knappan tímaramma einstakra verkefna. Nefndin vísar til þess sem að framan segir, að hún hafi ekki sérfræðiþekkingu til að ákvarða um einstaka verkþætti, tilgreindar eru sérstakar uppeldisaðferðir og við tökum enga efnislega afstöðu til þess.

Nefndin fagnar því að efla skuli þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari og skilvirkari og að bæta eigi ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Þá tekur nefndin undir mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt gagnvart þeim sem nýta þjónustu ríkisins og að gætt skuli jafnræðis í þjónustu milli sveitarfélaga.

Nefndin telur áætlaða innleiðingu íslenskra gæðastaðla um vistun barna utan heimilis mikilvægt verkefni enda hafa dæmi sýnt að faglegar kröfur til vistunar- og meðferðarúrræða þurfa að vera nákvæmar og skýrar. Nefndin leggur áherslu á að eftirlit með þessum úrræðum sé með skýrum og gagnsæjum hætti. Hvað kynningu staðlanna varðar áréttar nefndin að ekki er nægilegt að kynna staðlana fyrir starfsfólki meðferðarheimila og barnaverndarnefnda. Einnig þurfi að kynna þá fyrir vistforeldrum þar sem þeir gegna mikilvægu hlutverki við vistun barna.

Nefndir tekur undir ábendingar sem fram komu um að finna þurfi meðferðarúrræði fyrir gerendur í kynferðisafbrotamálum. Einnig þarf að skoða með hvaða hætti hagsmuna barna fíkla sé best gætt.

Þá telur nefndin að samræma þurfi vinnubrögð og starfshætti á öllum sviðum barnaverndar og tryggja eftirfylgni þegar fjölskyldur flytja á milli sveitarfélaga. Voru nefndinni kynnt dæmi þar sem börn urðu illa úti þegar byrjað var frá grunni á meðferð þeirra við flutning þar sem vitneskja um þau úrræði sem þegar hafði verið beitt fluttist ekki með. Einnig virðist sem engin vitneskja flytjist milli sveitarfélaga ef fjölskylda flytur eftir að barnaverndarnefnd tekur mál hennar til skoðunar, t.d. vegna gruns um heimilisofbeldi. Leggur nefndin áherslu á að gæta þurfi verndunar barna í slíkum tilvikum og setja verklagsreglur sem leysi þennan vanda að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða.

Nefndin áréttar að samþykkt tillögunnar — nefndar eru upphæðir í tillögunni á nokkrum stöðum varðandi kostnaðinn — fylgir ekki fjárveiting. Taka þarf sjálfstæða ákvörðun um fjárveitingar við fjárlagagerð en viljayfirlýsing áætlunarinnar er skýr.

Með vísan til þess sem fyrr segir leggur nefndin ekki til breytingar varðandi efni áætlunarinnar. Þó leggur nefndin til að uppsetningu verði breytt og að tekin verði út ensk heiti sem hún telur óeðlilegt að hafa í sjálfri ályktuninni og eru tillögur gerðar um það í breytingartillögum sem fylgja hér með.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Ásta R. Jóhannesdóttir og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Kristinn H. Gunnarsson skrifaði undir álit þetta með fyrirvara.

Undir álitið skrifa Guðbjartur Hannesson, formaður nefndarinnar, Ármann Kr. Ólafsson, Jón Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson og Ögmundur Jónasson.