135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

umferðarlög.

579. mál
[22:57]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég tel að hér sé býsna mikilvægt mál á ferðinni. Það fékk ágæta umfjöllun í samgöngunefnd þegar það var þar tekið fyrir eins og kom fram í máli hv. formanns samgöngunefndar, Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Nefndarmenn skrifa allir undir þetta fyrirvaralaust og leggjum við að sjálfsögðu til að frumvarpið verði samþykkt.

Ég vil bara segja stuttlega að ég tel að mikilvægt sé að koma reglu á þau ökutæki sem fjallað er um í þessu lagafrumvarpi. Það er mikilvægt öryggisatriði. Ég held að við getum öll verið sammála um að umferðaröryggi er nokkuð sem við viljum öll vinna að og hefur reyndar komið fram í umræðum áður á fyrri stigum að umferðaröryggi er eitt af stóru samfélagslegu viðfangsefnunum á sviði samgöngumála. Sem betur fer hefur vaxandi áhersla verið lögð á það mál og ekki bara af hálfu ríkisins. Umferðaröryggismálin hafa fengið aukið vægi og sérstaka umfjöllun í samgönguáætlun. Lagðir hafa verið sífellt meiri fjármunir í það viðfangsefni.

Sömu sögu er að segja af sveitarfélögunum. Þau hafa almennt sinnt umferðaröryggismálum af meiri festu en áður var m.a. með því að setja upp 30 kílómetra hverfi, hraðahindranir, betri frágang gatna o.s.frv. Ég tel að hér sé mjög mikilvægt umferðaröryggismál á ferðinni sem við styðjum að sjálfsögðu.

Það má alltaf deila um hvort þær upphæðir sem hér er gert ráð fyrir að settar verði inn í umferðarlögin séu eðlilegar. Ég held að það sé hæfileg fjárhæð sem hér er lögð til. Ég vil sérstaklega fagna þeirri breytingartillögu sem samgöngunefnd náði samstöðu um að leggja til en í 1. gr. frumvarpsins, eins og það var lagt fram, var gert ráð fyrir því að ráðherra gæti ákveðið gjald allt að 15.000 kr. sem eigandi ökutækis skyldi greiða við skoðun hafi ökutækið ekki verið fært til skoðunar á réttum tíma, eins og hér segir í frumvarpinu. Nefndin leggur sem sagt til, eins og hv. formaður samgöngunefndar gat um, að leggja skuli þetta gjald á þannig að það sé ekki lengur bara heimilt heldur fastbundið í lögunum.

Ég held að sú breyting sem nefndin lagði til hvað þetta snertir sé til bóta og ég fagna henni. Sömuleiðis held ég að rétt sé að flýta gildistöku þessa ákvæðis frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir en það gerði ráð fyrir gildistöku 1. janúar 2009. Nefndin leggur til að það flytjist til 1. október 2008 þannig að því er flýtt um þrjá mánuði frá því sem upphaflega var lagt til. Reyndar ræddi nefndin um að fara með þetta enn framar í tíma, jafnvel síðsumars eða 1. september. En við yfirferð á þeim hugmyndum kom í ljós að það tæki nokkurn tíma að undirbúa gildistöku þessara breyttu laga og því þyrfti að sjálfsögðu að gefa góðan tíma til þess að kynna þær breytingar sem hér eru á ferðinni. Niðurstaðan varð engu að síður sú að leggja til lögin tækju gildi 1. október. Gildistökunni er því flýtt um þrjá mánuði frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir og ég fagna þeirri breytingu og tel hana til bóta.