135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[23:11]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Landeyjahöfn.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og fjölmargar umsagnir.

Með frumvarpinu er lagt til að byggð verði ferjuhöfn í Bakkafjöru í Landeyjum sem alfarið verði fjármögnuð úr ríkissjóði og rekin af ríkinu.

Á fundum sínum ræddi nefndin m.a. um eignarhald og rekstrarform hafnarinnar að framkvæmdum loknum en samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að yfirstjórn verði í höndum samgönguráðherra. Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um að sveitarfélögin Rangárþing eystra og Vestmannaeyjabær ættu að koma að rekstri hafnarinnar. Um framkvæmdina gætir nokkurrar sérstöðu þar sem hún er hugsuð til að bæta samgöngur milli lands og Vestmannaeyja en framkvæmdin sjálf verður í öðru sveitarfélagi, þ.e. í Rangárþingi eystra. Telur nefndin að á þessu stigi málsins sé ekki rétt að gera breytingar á frumvarpinu í þá veru enda liggur ekki fyrir samkomulag milli sveitarfélaganna og ríkisins hvernig því ætti að vera háttað.

Á fundum nefndarinnar var einnig rætt um hafnarframkvæmdina en hafnalög ná ekki til einstakra framkvæmda af þessu tagi og því nauðsynlegt að setja sérstök lög um hana. Nefndin leggur þess vegna áherslu á nauðsyn þess að setja almennan lagaramma um þær ferjuhafnir og ferjubryggjur sem ríkissjóður veitir fjármuni til í fjárlögum.

Við teljum málið vera stórt hagsmunamál og að það verði til mikilla bóta fyrir samgöngur milli Vestmannaeyja og lands.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt og undir það skrifa allir nefndarmenn en Árni Þór Sigurðsson og Guðjón A. Kristjánsson eru samþykkir álitinu með fyrirvara.