135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:34]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi að það sé jafnvel í fyrsta skipti í sögu Alþingis sem þessi orð hafa verið látin falla, að það hafi tekist pólitískar ástir með fólki. Ég kannast ekki við þessar ástir en kannski fæ ég betri skýringar á því síðar. (Gripið fram í.)

Það er spurning um orðanotkun hvort við tölum um einkavæðingu eða einkarekstur. Ég skal alveg fallast á það með hæstv. ráðherra að yfirleitt höfum við notað orðið einkarekstur í sambandi við rekstur eins og t.d. á tæknifrjóvgunarstarfseminni og heilsugæslustöð sem er hér í borginni o.fl. en allt er þetta engu að síður einkavæðing á einhverju stigi.

Hæstv. ráðherra talar um að honum finnist það vera slappt af Framsóknarflokknum að greiða þá ekki atkvæði gegn frumvarpinu fyrst þetta sé svona stórhættulegt. Málið er að það er búið að setja þessa stofnun á laggirnar, hún er til í dag. Það er um það bil verið að ráða forstjóra (Gripið fram í.)og það er búið að skipa stjórn þannig að hún kemur ekki til atkvæða hér. Það sem kemur til atkvæða hér eru aðallega greinar sem við framsóknarmenn höfum áður beitt okkur fyrir að yrðu að lögum hér á hv. Alþingi og við erum ekki svo ómerkileg að við förum að greiða atkvæði gegn þeim. Þannig er nú þetta mál vaxið, hæstv. forseti.