135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:35]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram eru einu nýmælin með því frumvarpi sem nú er til umræðu þau að kveðið er á um verkefni nýrrar sjúkratryggingastofnunar og hlutverk hennar. En raunin er, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að stofnunin var sett á laggirnar með breyttum lögum um síðustu áramót. Önnur ákvæði frumvarpsins eru úr sjúkratryggingakafla úr heilbrigðisþjónustulögum, kafla um samninga við heilbrigðisþjónustu, en ný heilbrigðisþjónustulög voru samþykkt á síðasta vorþingi. Þau höfðu þá verið í vinnslu ráðherra Framsóknarflokksins, Jóns Kristjánssonar og síðan Sivjar Friðleifsdóttur, um alllangt skeið.

Því veltir maður fyrir sér þegar lesið er álit fulltrúa Framsóknarflokksins í heilbrigðisnefnd: Hverju er Framsóknarflokkurinn mótfallinn í þessu frumvarpi? Nú eru þær valdheimildir sem koma fram í þessu frumvarpi nákvæmlega þær sömu og ráðherra Framsóknarflokksins beitti sér fyrir sl. vor þegar ný heilbrigðisþjónustulög urðu að lögum.

Þá sagði þáv. hæstv. heilbrigðisráðherra Siv Friðleifsdóttir m.a. í ræðu sinni við framlagningu frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Ljóst er að heimild ráðherra til að semja við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn og aðra rekstraraðila um veitingu heilbrigðisþjónustu er afar mikilvægt stjórntæki í höndum ráðherra er kemur að skipulagningu heilbrigðisþjónustunnar og forgangsröðun verkefna.“

Hún segir einnig að í frumvarpinu sé leitast við að tryggja að ráðherra hafi nauðsynlegar valdheimildir til að stýra hinu opinbera heilbrigðiskerfi og skipuleggja það innan ramma laganna og ákveða hvort og þá í hvaða mæli tiltekin heilbrigðisþjónusta sé veitt með greiðsluþátttöku ríkisins, hvar hún sé veitt og af hverjum. Hún segir jafnframt að heimildir einstakra heilbrigðisstofnana til samninga séu auknar eftir atvikum með leyfi ráðherra.

Ég er að velta fyrir mér hvað hefur breyst frá síðasta ári. Hvað veldur því að Framsóknarflokkurinn styður ekki við eigin stefnu eins og hann rak hana í langan (Forseti hringir.) tíma innan heilbrigðiskerfisins?