135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:38]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Miðað við þessi orð formannsins hlýt ég að spyrja: Til hvers er frumvarpið flutt ef þetta er allt í lögum í dag? Það hlýtur að vera næsta spurning.

Auðvitað er það þannig að í lögum í dag eru heimildir ráðherra til að semja eins og gert hefur verið en í þessu máli er hins vegar meginmarkmiðið að allur rekstur heilbrigðisstofnana verði á grundvelli samninga við sjúkratryggingar. Af þessu hlýst náttúrlega heilmikill viðbótarkostnaður því að það þarf kunnáttu og það þarf getu á báðum stöðum til þess að af samningum geti orðið, bæði hjá sjúkratryggingum og í öllum þessum stofnunum. Við erum því að breyta kerfinu á þann hátt að það verður dýrara, eins og ég sagði áðan. Það er algjörlega á skjön við það sem staðið hefur upp úr hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda þessarar umræðu og framlagningar þessa máls að heilbrigðiskerfið sé orðið allt of dýrt, að það þurfi að ná tökum á kostnaðinum.

Þegar til kastanna kemur er þetta ekki til að spara. Þetta er hins vegar til þess að fjölga rekstrarformum og gera það mögulegt að semja við einkaaðila.