135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:49]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemd við ræðu hv. þingmanns sem fjallaði um of skjóta afgreiðslu málsins í nefndinni. Ég vil að því sé haldið til haga að mér telst til að nefndin hafi fundað í u.þ.b. 20 klukkustundir um málið sem mér þykir ágætt og það er líka vert að hafa í huga að umsagnir voru mjög í eina átt og ekki komu fram verulegar athugasemdir við frumvarpið í meðförum nefndarinnar.

Þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur kosið að fara mikinn með yfirlýsingum um markaðsvæðingu og einkavæðingu og ýmsa orðaleppa sem ekki er alltaf ljóst hvað þýða þá vil ég samt reyna að þrengja málið aðeins. Ég kalla eftir afstöðu hv. þingmanns í því efni af því að hún staðhæfði við 1. umr. málsins að í þessu frumvarpi fælust auknir sjúklingaskattar. Þegar óskað var eftir því við hv. þingmann í 1. umr. að hún fyndi orðum sínum stað í frumvarpinu þá gat hún það ekki.

Þess vegna vil ég gjarnan vita núna við þetta tækifæri hvort hv. þingmaður er tilbúin til þess að útskýra þau orð eða draga þau til baka.