135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:51]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um endurtekningu á aumum útúrsnúningi hv. þm. Árna Páls Árnasonar að ræða. Það má öllum ljóst vera að við 1. umr. þessa máls var ég að fjalla almennt um skipulag heilbrigðisþjónustunnar. Ég fullyrti þá og fullyrði enn að einkavæðing í heilbrigðisþjónustunni mun koma niður á sjúklingum, hugsanlega vegna þess að gæðin versna en örugglega vegna þess að kostnaður þeirra eykst, þ.e. sjúklingaskattar verða hærri. Þessu var ég nú búin að svara og hélt að ég þyrfti ekki að endurtaka það.

Það er alveg ljóst að þetta frumvarp gengur í þá átt að styrkja stjórntæki einkavæðingar í heilbrigðisþjónustunni með því að setja upp regluverk til þess að semja um eða bjóða út heilbrigðisþjónustu á markaði gagnvart stofnunum og smærri aðilum. Það er líka alveg ljóst að það mun kosta þessar stofnanir, t.d. Landspítala – Háskólasjúkrahús, gríðarlegt fé að koma upp þessu regluverki til þess að geta boðið í þjónustu sem sjúkratryggingastofnun ætlar að greiða.

Það er staðreynd að í Bretlandi hafa ráðgjafarfyrirtæki í kringum einkavæðinguna í heilbrigðisþjónustunni, sem er verið að byrja á hér, fitnað eins og púkinn á fjósbitanum, eðlilega. Það þurfa allir þeir sem veita heilbrigðisþjónustu, stórir og smáir, að kaupa sér ráðgjöf til þess að geta boðið í tiltekin verk á markaðnum. Og alveg eins og við sjáum að verkfræðiskrifstofur eru sérfræðingar í slíku þá koma sérstakar ráðgjafarskrifstofur til með að annast þetta fyrir sjúkrastofnanirnar.

Og hver skyldi nú borga kostnaðinn af því, hv. þm. Árni Páll Árnason, aðrir en allur almenningur í landinu og sjúklingar á Íslandi?