135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:53]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að það skiptir máli í þinglegri meðferð að reyna að upplýsa um mál og skýra óvissu þá lít ég svo á að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafi hér verið að staðfesta það að í þessu frumvarpi er ekki að finna ákvæði sem kveða á um frekari álögur á sjúklinga. Hvað hún heldur hins vegar að meint einkavæðing muni kosta almenning í landinu er allt annað mál og þingmaðurinn gefur sér að verið sé að feta einhverja braut sem menn eru ekki á nú þegar.

Það sem reynt er að gera með því frumvarpi sem hér er um að ræða er að koma á skilvirku kerfi þar sem þjónustan er forsenda greiðslna. Þar fá allir greiðslu, ekki þjónustu, ekki bara þeir sem hafa verið svo heppnir að gera einhvern tímann samning við heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins um þjónustutengd viðmið, heldur allir, líka opinberar stofnanir. Almenningur í landinu getur þannig treyst því að heilbrigðisþjónustan sé fjármögnuð á grundvelli þeirrar þjónustu sem ætlunin er að veita.

Það hefur verið sagt margt og mikið á opinberum vettvangi undanfarið um reynslu af breska heilbrigðiskerfinu. Að flestu leyti er þar ekki um sambærilega þætti að ræða og mjög mikilvægt að menn búi ekki til tröllasögur og trúi þeim án þess að yfirfæra þær á íslenskan veruleika. Aðstæður hér eru mjög ólíkar þeim sem eru í Bretlandi að flestu leyti og það er algjörlega ljóst að ekki er verið að koma hér á sama kerfi og er í Bretlandi.

Til dæmis er gert ráð fyrir því í því frumvarpi sem hér um ræðir að komið verði á margvíslegu eftirliti og upplýsingaflæði inn í kerfið sem ekki er fyrir hendi í Bretlandi í dag og er eitt af vandamálunum sem Bretar eiga við að etja.