135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[10:55]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það vill nú svo vel til að hér á landi er stödd dr. Allyson Pollock prófessor sem er sérfræðingur í afleiðingum af einkavæðingu breska heilbrigðiskerfisins. Hún hélt fyrirlestur á vegum Háskólans á Bifröst og á vegum BSRB í morgun. Ég held að það sé mál manna sem á hana hafa hlýtt að þar séu svo sannarlega vítin til að varast.

Frú forseti. Einkarekstur heilbrigðisþjónustunnar er almennt ekki ódýrari en opinber rekstur. Við höfum skjalfest dæmi fyrir okkur á borðum þingmanna núna þar sem er flaggskip einkavæðingarinnar í heilbrigðisrekstri á Íslandi, Sóltúnssamningurinn, bundinn í báða skó til 27 ára, óuppsegjanlegur nema að stórfelldar vanefndir sannist og ekki aðeins 14–17% dýrari fyrir ríkið en rekstur annarra heimila, hjúkrunarheimila, heldur kemur í ljós að á þeim árum sem heimilið hefur starfað er það búið að krefja ríkið um 130 millj. kr. til viðbótar ofan á það sem er þó miklu meira en það sem aðrir fá.

Einkavæðing í heilbrigðisþjónustu felur í sér eitt af þrennu: Eignatilfærslu, eins og þegar Síminn var seldur, tilfærslu á rekstri, útboð á þjónustu, eins og við erum hér að tala um, eða tilfærslu á fjármögnun þar sem einkafjármögnun kemur að hluta eða að öllu leyti í stað opinberrar fjármögnunar, þ.e. þegar sjúklingum í þessu tilfelli er ætlað að borga þjónustuna alla eða hluta af henni. Allt eru þetta mismunandi stig einkavæðingar og ég held, frú forseti, að við í þinginu séum nú loksins að komast á það stig að geta rætt af alvöru um það hvað felst í einkavæðingu, hinum ýmsu stigum hennar. Ég vísa aftur til minnisblaðs Rúnars (Forseti hringir.) Vilhjálmssonar prófessors sem fylgir nefndaráliti okkar hv. þm. Þuríðar Backman.