135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:20]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fjallaði sérstaklega um málsmeðferð í nefndinni. Þannig vildi til að nefndardagar komu inn á þeim tíma sem nefndin hafði málið til umfjöllunar. Í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar áðan kom fram að hann hafði tekið saman að fjallað hefði verið um málið í allt að 20 tíma, sem þýðir að þetta eru eins og átta til tíu vikur sem við höfum í venjulegum fundartíma innan þingsins. Því verður ekki sagt að ekki hafi verið eytt nógum tíma í þetta. Það komu 33 gestir til nefndarinnar frá 18 aðilum, 70 umsagnir bárust og það komu allir þeir gestir sem nefndarmenn óskuðu eftir. Í þeim umsögnum sem við fengum var yfirgnæfandi meiri hluti jákvæður í málinu.

Þar fyrir utan var ekkert nýtt í málinu að því leyti að þarna var verið að færa inn, eins og ég hef sagt áður í dag, nánast óbreytt ákvæði almannatryggingalaga um sjúkratryggingar, nánast óbreytt ákvæði um samninga um heilbrigðisþjónustu úr heilbrigðisþjónustulögum og síðan var kveðið á um hlutverk hinnar nýju stofnunar sem var ákveðið með lögum fyrir áramót. Málið er því í sjálfu sér ekki flókið og í rauninni í samræmi við ýmsar ábendingar sem hefur verið beint til okkar.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður talaði um að við séum að fara leið Breta — ég hlustaði á þá ágætu konu, Pollock prófessor, í gær og það var náttúrlega svört mynd sem hún málaði af ástandinu í Bretlandi í heilbrigðismálum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að við erum ekki að fara leið Breta. Við erum að fara hina norrænu leið, við ætlum að viðhalda (Forseti hringir.) hinu félagslega heilbrigðiskerfi hér eftir sem hingað til.