135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:31]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kostnaðargreining getur verið með mjög mismunandi hætti. Hægt er að fara ofan í það að hafa hluta af vinnunni innbyggðan í kerfið, að skrá allt með tilliti til kostnaðargreiningar. Það er líka hægt að fara í kostnaðargreiningu og hafa það sem hluta af og mati af fjárlögum til hverrar opinberrar stofnunar. Við verðum að vara okkur á því því að í þessari hugmyndafræði, að kaupa og selja, er innbyggt eftirlits- og skráningarkerfi. Það kerfi getur út af fyrir sig gersamlega kaffært þjónustuna. Það verða allir svo uppteknir af að skrá kerfisins vegna og eftirlitið bólgnar út eins og púkinn á fjósbitanum. Það er bara kerfi þannig að eftirlitskerfin eru ... (Gripið fram í.)

Það hefur sýnt sig að ódýrara er fyrir þjóðfélagið að hafa sem mest af þjónustunni bundið í félagslegu heilbrigðiskerfi og um það viljum við standa vörð. Það er líka mikilvægt að hafa sterkt félagslegt heilbrigðiskerfi til að hafa samfellu í þjónustunni. Samfella í þjónustu skilar ekki síður ávinningi til þjóðarbúsins og til einstaklinganna. Það er erfitt að halda þeirri samfellu þegar búið er að búta þetta niður.

Við skulum skoða kerfið hjá Svíunum í sumar eins og við getum skoðað það breska. Það er verið að vitna í þessi tvö kerfi og meta hvernig þau standa. Mér er, hæstv. forseti, nákvæmlega sama hvort það eru vinstri eða hægri menn sem koma einhverri vitleysu á.