135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:38]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns minna á mikilvægi þess að það þjóðþrifamál sem við ræðum nú komist sem fyrst á löggjafarstig. Umfjöllun um málið í nefndinni hefur, eins og ég gat um í andsvari áðan, farið fram með ágætum. Það hefur náðst að fjalla um það í upp undir 20 klukkustundir, að því er mér telst til, og málið hefur skýrst mjög í meðförum nefndarinnar.

Hv. þm. Ásta Möller gerði áðan grein fyrir áliti meiri hluta nefndarinnar. Ég vil staldra við nokkur atriði í því samhengi.

Í fyrsta lagi er í nefndaráliti fjallað nokkuð ítarlega um hina nýju sjúkratryggingastofnun sem stefnt er að að komið verði á fót. Það er mjög mikilvægt að hún komist á fót og það er mjög mikilvægt að hún hafi fullnægjandi burði, hafi til að bera mannafla sem hafi þekkingu og forsendur til að leggja sjálfstætt mat á aðstæður. Ég veit til þess að starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins, sem unnið hefur að sjúkratryggingum, bíður þess með óþreyju að þessi lög taki gildi þannig að óvissu um framtíðina verði eytt. Ég vona að sú staðreynd að við náum að ljúka 2. umr. um málið og atkvæðagreiðslum um það dugi til að létta að nokkru þeirri óvissu og skapa aukinn fyrirsjáanleika fyrir starfsfólkið þannig að það átti sig betur á því hvers er að vænta á næstu mánuðum.

Í umfjöllun meiri hluta nefndarinnar um hina nýju stofnun segir að stofnunin þurfi að hafa breiða faglega þekkingu til að tryggja henni sterkt samningsumhverfi. Stofnunin þurfi að hafa á að skipa sérfræðiþekkingu sem tryggi að saman geti farið innan hennar fagleg og fjárhagsleg hæfni til að meta sjálfstætt aðstæður við samningsgerð hverju sinni, mat á heilsufarslegum þörfum notenda almennt og þeirri áhættu sem kunni að felast í tilteknum aðgerðum eða aðgerðaleysi aðila. Það verður ekki nægilega brýnt fyrir okkur öllum hversu mikilvægur þessi þáttur er, hversu mikilvægt það er að stofnunin hafi þessa þekkingu, geti lagt sjálfstætt mat á kostnað við þjónustu og þá sérstaklega metið kostnað af aðgerðum eða aðgerðaleysi. Við vonumst til þess, og sú er ástæðan að baki þessum breytingum, að breytingar á heilbrigðiskerfinu verði til þess að auka enn gæði þjónustunnar og jafnframt tryggja að greiðslurnar miðist við þá þjónustu sem veitt er og að fjármagn fylgi sjúklingum.

Á það hefur skort í núverandi kerfi að horft sé til heildarhagsmuna samfélagsins og heildarhags einstaklingsins af aðgerð. Við erum mjög bundin við það að greiða fyrir tilteknar aðgerðir og tilteknar meðferðir án tillits til þess hver heildarhagur einstaklingsins eða samfélagsins af tiltekinni þjónustu er. Mjög gott dæmi er forvarnaþjónusta á sviði geðlækninga sem oft hefur verið rætt um að væri verkefni sem væri eðlilegt að setja mun meira fjármagn til vegna þess mikla kostnaðar sem samfélagið og sjúklingar verða fyrir ef á er ekki stemmd að ósi.

Horfa má á ýmis önnur heilsufarsvandamál sem hrjá okkur í dag, ýmiss konar stoðkerfissjúkdóma og aðra slíka sjúkdóma sem hægt væri að ná betri árangri í baráttu við ef fé væri í auknum mæli veitt til meðferðar á upphafsstigum sjúkdóms frekar en bíða eftir að heilsufarstjón verði meira. Það er öll þessi umgjörð — stofnunin verður að hafa þessa daglegu hæfni til að leggja sjálfstætt mat á þessa þætti. Auðvitað er það þannig, eins og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa varað við, að þegar búið er að greina allan kostnað er auðveldara fyrir menn sem veita þjónustuna að fá meira fé ef þeir geta fjölgað verkum. Þess vegna er líka gert ráð fyrir því í frumvarpinu að hömlur séu á oflækningum og tæki séu til að bregðast við slíkum freistnivanda.

Freistnivandi er fyrir hendi í öllum kerfum, ekki bara einkareknum kerfum. Það er alltaf freisting hjá öllum sem reka stofnanir eða eru í eigin rekstri að ná meiri árangri út úr starfi sínu. Það sem skiptir höfuðmáli í þessu tilviki er að stofnunin hafi aðstöðu til þess að eiga í upplýstu faglegu samstarfi við heilbrigðisstéttir og vinna þannig að þróun heilbrigðs umhverfis fyrir veitingu heilbrigðisþjónustunnar.

Virðulegi forseti. Í umræðum í nefndinni var nokkuð fjallað um ákvæði 43. gr. Þar er í 2. mgr. ákvæði um að óheimilt sé að kaupa sig fram fyrir í biðröð, m.ö.o. að endurgjaldið sem kveðið er á um í lögunum felist í greiðsluþátttöku sjúklings og einnig að endurgjaldið sem sjúkratryggingastofnun veitir veitanda þjónustunnar samkvæmt samningum feli í sér heildarendurgjald fyrir þjónustuna og óheimilt sé að krefjast frekari greiðslna. Þeirri spurningu var velt upp í meðförum nefndarinnar hvaða reglur giltu um önnur tilvik þegar mögulegt er að kaupa sig fram fyrir, þ.e. þegar sjúklingur kýs einfaldlega að afþakka alfarið greiðsluþátttöku hins opinbera og biður á þeim grundvelli um að verða tekinn fram fyrir.

Fram kom í meðförum nefndarinnar að í núgildandi samningum milli Tryggingastofnunar ríkisins og lækna sé ákvæði sem felur m.a. í sér að sjúkratryggðum einstaklingi er heimilt að óska skriflega eftir því að læknir taki hann til meðferðar án greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Það er gert til að sjúklingar geti út frá persónuverndarsjónarmiðum fengið læknisþjónustu án þess að upplýsingar þar um fari í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. En jafnframt er það skilyrði fyrir þessari heimild í núgildandi samningum að viðkomandi læknir geti boðið sjúklingi þjónustu innan almannatryggingakerfisins á sama tíma þannig að sjúklingur hafi raunverulegt val á greiðsluaðferð. Ef læknir getur ekki boðið samkvæmt samningum sínum við Tryggingastofnun þjónustu á sama tíma getur hann ekki boðið viðkomandi þjónustu án greiðsluþátttöku sjúkratryggingastofnunar. Þetta ákvæði tekur til allra sjúkratryggðra einstaklinga og er bindandi fyrir lækna sem semja við Tryggingastofnun. Með því fyrirkomulagi sem nú tíðkast er þannig tryggt að sjúkratryggðir einstaklingar geta ekki samið við veitendur heilbrigðisþjónustu sem eru með samning við Tryggingastofnun.

Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessu fyrirkomulagi og með þessu tel ég algerlega girt fyrir að veitendur heilbrigðisþjónustu sem semja við sjúkratryggingastofnun geti veitt sjúkratryggðum einstaklingi forgang á biðlista eða aðra ívilnun gegn því að hann borgi kostnað við aðgerð að fullu eins og fram kemur í nefndaráliti. Með öðrum orðum er gert ráð fyrir því af hálfu meiri hluta nefndarinnar að þetta fyrirkomulag verði áfram við lýði og verði hluti af samningum nýrrar sjúkratryggingastofnunar við alla veitendur heilbrigðisþjónustu með þeim hætti að ekki geti komið til þess að sjúkratryggðir einstaklingar geti kallað eftir því að fá að sleppa við kostnaðarþátttöku hins opinbera og þannig komist fram fyrir í biðröð eða með öðrum hætti fengið betri eða skjótari þjónustu.

Það er grundvallaratriði fyrir okkur sem viljum verja félagslegt heilbrigðiskerfi og viljum verja heildstætt þjónustuframboð í heilbrigðiskerfi að norrænni fyrirmynd að við tryggjum gæði. Ef gæðin eru ekki tryggð sköpum við mjög fljótt óþreyju meðal þeirra sem sætta sig ekki við hin löku gæði. Þá búum við til þá hættu að þeir betur stæðu í samfélaginu sjái ekki lengur ástæðu til að borga skatta og taka þátt í fjármögnun heildstæðrar heilbrigðisþjónustu. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við tryggjum gæðin sem forsendur þjónustunnar og að gæðaviðmið sé grundvallarforsenda allrar veitingar heilbrigðisþjónustunnar. Það er grunntónninn í frumvarpinu sem hér er til meðferðar. Ekki verður lögð of mikil áhersla á það hversu mikilvægt þetta er til að tryggja samfélagslega samstöðu til lengri tíma litið um félagslegt heilbrigðiskerfi af þeim toga sem við búum við í dag.

Við viljum tryggja heilbrigðiskerfi þar sem hið opinbera fjármagnar heilbrigðisþjónustuna. Við viljum koma í veg fyrir óæskilegar hliðarafleiðingar af því fyrirkomulagi. Við viljum lágmarka freistnivanda, við viljum lágmarka oflækningar. Ég tel að við gerum það með góðum hætti í frumvarpinu og hlakka til frekari umfjöllunar um það á lokastigum í sumarlok.

Virðulegi forseti. Að síðustu vil ég ítreka það sem hér hefur verið nefnt í andsvörum um tilvísanir til reynslu Breta af breytingum á sínu heilbrigðiskerfi. Þar er mjög ólíku saman að jafna við það kerfi sem hér er ætlunin að koma á. Ef marka má lýsingu dr. Allyson Pollock í gær á breska kerfinu blasir það við að í núverandi kerfi þar eru forsendur til að einkaaðilar geti fleytt rjómann af verkum, þeir geti m.ö.o. valið sér að taka einungis þátt í því þjónustuframboði sem þeir hagnast mest á. Það virðist vera að ekki séu tiltæk gögn um gæði og tengsl gæða og verðs. Það virðist vera að ekki séu tiltæk nauðsynleg gögn um fjölda innlagna, um fjölda meðferða o.s.frv. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það sem hefur lesið það frumvarp sem við erum með hér til umfjöllunar að hér er mjög ólíku saman að jafna.

Það er algerlega ljóst að þannig verður ástandið ekki þegar þessi lög hafa tekið gildi. Þvert á móti eru í frumvarpinu sérstök ákvæði til að koma í veg fyrir að einkaaðilar geti fleytt rjómann ofan af með því að sækjast einungis eftir þeim aðferðum sem ábatasamastar eru. Það er beinlínis tekið fram í lögunum að það séu lögmæt sjónarmið og meðal markmiða sjúkratryggingastofnunar að koma í veg fyrir slíka háttsemi og að horfa fyrst og síðast á það að tryggja heildstætt þjónustuframboð, þjóðaröryggishlutverk heildstæðs þjónustuframboðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og opinberra sjúkrastofnana. Það er ekki hægt að finna neinn samjöfnuð við lýsingu dr. Allyson Pollock á hinu breska kerfi og því kerfi sem við erum að ræða um að koma á.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem hér hefur komið fram. Ég hlakka til frekari umfjöllunar um þetta mál í heilbrigðisnefnd. Hún hefur þegar fjallað ítarlega um málið og það er mjög mikilvægt að halda þeirri umfjöllun áfram, upplýsa málið enn frekar. Ég er sannfærður um að þeir sem kynna sér þetta mál vel sjái hversu skynsamlegt það er og hversu vel það varðar leiðina fram á við til að tryggja áframhaldandi tryggt þjónustuframboð, heildstætt þjónustuframboð félagslegrar heilbrigðisþjónustu sem sé aðgengileg öllum án tillits til efnahags og þar sem tryggt er að enginn geti keypt sig fram fyrir í biðröð eða kallað eftir betri þjónustu í ljósi betri efnahags.