135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:14]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er einfaldlega svo að öll helstu orkufyrirtæki landsmanna önnur en Hitaveita Suðurnesja eru í eigu opinberra aðila og það á jafnt við um auðlindirnar og reksturinn, hvort heldur verið er að framleiða rafmagn, dreifa því, flytja það eða selja það. Hið sama gildir um hitaveiturnar. Það er þetta kerfi eða skipulag á raforkumarkaðnum sem við vinstri græn viljum standa vörð um. Ég fagna því að Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að þessari endurskoðunarnefnd og einnig að þeir hafa tilnefnt fulltrúa í hana því að mér skilst að það höfum við í þingflokkunum ekki öll gert enn þá.

Herra forseti. Hvort menn tala um að selja 49% hlut eða að banna að selja 51% hlut er spurning um val, það er spurning um mat. Ég verð að segja í því sambandi að það eina sem stendur upp úr í því máli er metnaðarleysi meiri hlutans hér á Alþingi og iðnaðarráðherrans, að falla frá kröfunni um að 66% í sérleyfisrekstri þessara fyrirtækja sem á að slíta í tvennt ef ekki þrennt — að falla frá því að hafa eignarhaldið í 66% eigu opinberra aðila og lækka það niður í 51%. 51% og 49% eru sannarlega 100% en þessi fyrirtæki eru öll nema Hitaveita Suðurnesja í 100% eigu opinberra aðila í dag. Það er mitt mat og okkar í vinstri grænum að þannig eigi það að vera, þannig sé orkuauðlindum okkar (Forseti hringir.) og nýtingu þeirra best borgið.