135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:20]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en þar sem ég var fjarverandi vegna skyldustarfa erlendis fyrir hið háa Alþingi þegar 2. umr. fór fram þá langar mig í stuttu máli að nefna nokkur atriði sem ég tel vera mjög mikilvæg í þessu máli.

Eins og fram hefur komið þá hefur iðnaðarnefndin farið mjög vandlega yfir þetta mikilvæga mál og lagt í það mikla vinnu og fengið fjölda gesta, bæði sérfræðinga á þessu sviði og hagsmunaaðila til fundar við sig. Það var mjög góð samvinna í nefndinni og vil ég þakka hana. Þar sem formaður og varaformaður eru stödd í þingsal þá vil ég sérstaklega þakka þeim fyrir styrka stjórn í þessu máli.

Þær breytingar sem gerðar voru við frumvarpið af hálfu nefndarinnar og kynntar voru við 2. umr. eru afar mikilvægar að mínu mati og stendur meiri hlutinn einhuga að baki þeim. Án þess að endurtaka allt sem fram fór við 2. umr. vil ég fá að nefna stuttlega þær breytingar sem ég tel sérstaklega mikilvægar og til mikilla bóta í þessu máli.

Fyrst aðeins varðandi tímabundna afnotaréttinn til 65 ára. Eins og ég sagði við 1. umr. þessa frumvarps er það almennt skoðun mín að hagkvæm og best nýting auðlinda sé betur tryggð með því að þær séu í einkaeigu og ég ætla ekki að draga dul á þá skoðun mína. Niðurstaðan er sú að ákvæðið um 65 ára leigutíma standi óbreytt og styð ég þá niðurstöðu. Nefndin leggur hins vegar til þá mikilvægu breytingu að handhafi afnotaréttar skuli að liðnum helmingi afnotatímans eiga rétt á viðræðum við leigjanda um framlengingu. Þetta finnst mér afar mikilvæg breyting sem eyðir óvissu við rekstur þessara fyrirtækja og þeirra miklu fjárfestinga sem um ræðir í þessum bransa. Þessi breyting skiptir því miklu máli og færir þetta nær því sem væri um að ræða ef þetta væri í einkaeigu og þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu um það í þessum sal þá fagna ég því.

Önnur mikilvæg breyting er afnám tekjuviðmiða, tveggja milljarða markið, eins og það var kallað í nefndinni. Það kom skýrt fram í vinnu nefndarinnar að það væri óljóst og skapaði vandkvæði við rekstur þessara fyrirtækja þar sem menn væru sífellt að velta fyrir sér hvernig þeir ættu að halda sig ofan við tveggja milljarða markið eða koma í veg fyrir að þeir færu yfir það. Ég er því afar ánægð með að við höfum fundið aðra leið til að koma til móts við sjónarmið smærri fyrirtækja. Nokkrir gerðu athugasemdir, m.a. Sigurður Líndal lagaprófessor, um jafnræðissjónarmið varðandi þetta ákvæði og því þótti meiri hlutanum rétt að afnema það. Það þykir mér góð breyting.

Í þriðja lagi vil ég nefna breytinguna sem var til umræðu hjá fyrri ræðumanni um að eignarhlutdeild hins opinbera í sérleyfishafa fari úr aukinni meirihlutaeigu 2/3 í einfalda meirihlutaeign. Þetta er m.a. gert til samræmis við önnur lög, t.d. lög um vatnsveitur. Eins og fram kom hjá formanni nefndarinnar er markmiði frumvarpsins um opinbert eignarhald náð með einfaldri meirihlutaeign en auknum kvöðum á þessi fyrirtæki umfram önnur er aflétt og þess vegna fagna ég þeirri breytingu.

Ég vil einnig nefna að nefndin skoðaði afar vel þau álitamál er snúa að takmörkun eignarréttar með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár. Við fengum til okkar löglærða sérfræðinga og vil ég sérstaklega nefna þá Karl Axelsson lögmann og Sigurð Líndal lagaprófessor. Ég a.m.k. er sannfærð eftir rökstuðning þeirra um að öllum vafa um þetta álitamál hafi verið eytt. Þeir sögðu það mjög skýrum orðum að þeir teldu þessi ákvæði samrýmast stjórnarskránni og ég hef ekki forsendur til að draga lögspeki þeirra í efa þannig að ég tel þetta mjög mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar en vil þó að lokum nefna það sem ég nefndi í atkvæðaskýringu í gær varðandi bráðabirgðaákvæði III sem er nefnd sú sem forsætisráðherra mun skipa til að fjalla um nánara fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins og gera nánari tillögur í þessum efnum. Þetta er að mínu mati einn mikilvægasti þáttur þessa máls og nefndinni er ætlað að taka á þeim fjölmörgu álitamálum og efnahagslegu afleiðingum sem geta leitt af takmörkunum á framsali. Það hafa sérfræðingar bent á í því áliti sem fylgdi með frumvarpinu og eins þeir gestir sem við fengum á fund nefndarinnar. Ég hvet enn og aftur til náins samráðs við hagsmunaaðila og sérfræðinga á sviði hagfræði og efnahagsmála til að tryggja megi að lögin valdi ekki efnahagslegum skaða enda er það að sjálfsögðu ekki ætlunin með þeim.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mikið fleiri orð. Málið er vandlega yfirfarið. Breytingarnar eru að mínu mati mikilvægar og efnahagslegu álitamálunum er komið í farveg og það er mjög mikilvægt. Nefnd forsætisráðherra á eins og frekast getur að eyða þessum gráu svæðum, eyða óvissu í framtíðinni. Ég get að miklu leyti tekið undir varnaðarorð sem m.a. hafa komið fram hjá Viðskiptaráði Íslands, bæði í umsögn og líka í tilkynningu sem það sendi frá sér í síðustu viku, en ber fyllsta traust til nefndar forsætisráðherra og veit að hún mun vinna vel til að gæta vel að þessum atriðum.