135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:38]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get nú mótmælt því í sjálfu sér að hægt sé að ljúka einhverju gullæðistímabili — ef það hefur yfirleitt staðið yfir — með þessu frumvarpi ef það verður að lögum. Ég get engan veginn séð það því að að einhverju leyti getur það vakið upp svoleiðis tímabil með því að það er ekki hærra hlutfall sem á að vera í eigu opinberra aðila en frumvarpið kveður á um nú eftir að það kemur frá nefnd. Þar hefur Samfylkingin greinilega þurft að gefa nokkuð eftir.

En eins og hefur þegar komið fram þá styðjum við framsóknarmenn þetta mál þannig að það er nú ekki þess vegna sem ég kem hérna upp. Ég vildi bara vekja athygli á þessum þáttum vegna þess að hér hafa verið höfð stór orð uppi um hvað þetta sé sögulegur viðburður sem á sér stað í tengslum við málið.