135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[13:03]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt varðandi þetta mál þá koma fram í greinargerð minni hlutans, sem hv. þingmaður var að fara með áðan, eftirfarandi orð sem svara í mörgu tilliti gagnrýni þeirri sem komið hefur fram í orðum hans. Í greinargerð minni hlutans segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Líta verður svo á að áhrifin af frumvarpinu, komi það til framkvæmda, ættu að koma fram í auknu trausti á íslenskt efnahagskerfi auk þess að styrkja lánshæfismat ríkissjóðs og innlendra fjármálastofnana. Slíkt er einn liður í að verja heimilin í landinu.“

Þetta segir í áliti minni hluta og ég tek heils hugar undir það og skil þar af leiðandi ekki alla þá orðræðu sem hér hefur farið fram.

Varðandi það sem bent er á og tillaga er uppi um, að taka þessar heimildir fyrir í fjáraukalögum og fara að vinna strax í því, vil ég geta þess að það kom til tals í umræðu í fjárlaganefnd og við byggjum tillögu okkar um afgreiðslu frumvarpsins á 40. gr. stjórnarskrárinnar sem hlýtur að taka yfir lög um fjárreiður ríkisins en í 40. gr. stjórnarskrárinnar segir, með leyfi forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Á þessu byggjum við það nefndarálit sem hér liggur fyrir og jafnframt vil ég vitna til fjáraukalaganna, 44. gr. og 43. gr., og tek undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni. En ég bendi á að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram orðrétt, með leyfi forseta:

„Verði frumvarp þetta að lögum er gert ráð fyrir að í fjáraukalagafrumvarpi 2008 verði gerð nánari grein fyrir áætluðum áhrifum umræddrar lántöku á fjárreiður ríkissjóðs.“