135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[13:50]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt út af ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar til áréttingar því sem við erum að fjalla um hér, þetta er viðauki við þegar samþykkta og gildandi samgönguáætlun. Þessi viðauki felur ekki á nokkurn hátt í sér nýja stefnumörkun heldur er hann fyrst og fremst settur fram til þess að ríma við fjárlög.

Efnislega er hægt að taka undir ýmislegt af því sem hv. þingmaður kom hér inn á eins og tillögu hans um Kringlumýrarbraut/Miklubraut og þar höfum við hv. þingmaður á öðrum vettvangi verið sammála um áherslur. Efnislega sé ég enga sérstaka ástæðu til þess að fara út í það hér og nú. Ég hefði talið eðlilegra að ræða þessi stóru mál, sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni, í haust þegar við leggjum fram nýja stefnumörkun og nýja samgönguáætlun. Ég á fastlega von á því að hv. þingmaður geri þá grein fyrir þessum skoðunum sínum og flytji tillögur með haustinu.

En hér erum við fyrst og fremst að fjalla um viðauka við þegar samþykkta samgönguáætlun sem var hugsaður sem flýtiframkvæmd vegna aflasamdráttar en felur ekki í sér neina grundvallarstefnubreytingu.