135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[13:52]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að hér er verið að ræða um örlítinn viðauka við samgönguáætlunina. Engu að síður er þar um að ræða breytingu á gildandi samgönguáætlun. Mér fannst því eðlilegt að sýna nú á vordögum einhverjar áherslubreytingar eða viðbótarhugmyndir inn í samgönguáætlunina sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði vildum beita okkur fyrir. Þar birtast vissar áherslur og það þarf svo sem ekki að fara frekari orðum um það, ég hef gert grein fyrir þeim hér og þær liggja þá fyrir við afgreiðslu málsins.

Ég get tekið undir það með formanninum að tilefni gefst til þess, þegar endurskoðuð samgönguáætlun kemur til meðferðar á næsta þingi, að fara nánar ofan í einstaka þætti og heildstæðara en hér er lagt til. Þessar tillögur liggja engu að síður fyrir við afgreiðslu málsins.