135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[13:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í samgöngumálum er að mörgu að hyggja. Ég vil að þessu sinni aðeins afmarka mig við vegamálin og geyma mér umfjöllun um hafnamál og flugmál þar til í haust þegar ný ályktun frá ríkisstjórninni verður lögð fram. Ég vil þó segja um vegamálin að mér finnst að menn eigi að hafa megindrættina skýra og stefnuna nokkuð vel markaða. Það á að keppast við að byggja upp vegakerfið um land allt, hringveginn og helstu vegi út frá honum, þannig að það verði fullkomnir vegir með gott burðarþol og bundið slitlag og uppbyggingu þeirra verði hraðað sem mest menn mega. Menn verða að vinna að því verkefni sem mikið er eftir óunnið í sem er að leggja af einbreiðar brýr og breikka mjóa vegi sem eru orðnir tilfinnanlegt vandamál með vaxandi umferð og sérstaklega með vaxandi umferð vöruflutningabíla sem eru orðnir mjög stórir. Mér finnst vanta áherslu í þessum efnum í þeirri áætlun sem ríkisstjórnin hefur hér lagt fram. Jafnvel þó að um sé að ræða viðauka hefði verið hægt að sýna það sem áhersluatriði af hálfu ríkisstjórnar að setja töluvert fé í það verkefni strax sem mótvægisaðgerð. En mér sýnist að ekki hafi verið litið til þess að þessu sinni og ég vildi minna á það.

Í öðru lagi eiga menn að horfa til þess að lausnirnar séu ekki dýrari en þörf er á til að leysa þann vanda sem við er að glíma. Ég vara við þeirri þróun sem fór í gang fyrir nokkrum árum, og mér sýnist vera að verða vaxandi vandamál, að gerðar eru kröfur um mjög dýrar lausnir umfram það sem þörf er á þar sem oft er kostur á góðum lausnum fyrir minna fé. Versta dæmið, eða kannski fyrsta dæmið sem var mjög slæmt í þessum efnum, voru Héðinsfjarðargöng. Síðan stefnir í mikið slys hér í Reykjavík, að fara í Sundagöng og eyða þar 9 milljörðum umfram það sem menn komast af með án þess að fá nokkuð betri lausn. Svo eru það þessar miklu kröfur um að þjóðvegir út frá Reykjavík verði fjórar akreinar sem ég hef ekki sannfærst um að sé skynsamlegt. Á leiðinni til Selfoss þýðir það t.d. kostnað, ef ég hef réttar tölur, upp á 9 milljarða umfram það sem yrði ef menn létu sér duga 2+1 lausn. Það er áhyggjuefni, virðulegi forseti, þegar stjórnmálin fara í uppboð á lausnum sem endar svo með því að menn bjóða í dýrustu lausnina. Það þýðir að mikið fé fer til ákveðinna verkefna en það fé hefði verið hægt að setja í önnur verkefni sem þurfa þá að bíða. Við höfum að mínu viti ekki efni á því að fara þannig með opinbert fé. Ég hvet til þess að ríkisstjórnin sýni fulla aðgát í þessum efnum.

Ég vil fagna jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar sem eru í viðaukatillögu ríkisstjórnarinnar. Það er í fyrsta skipti sem þau koma inn á vegáætlun sem framkvæmd. Með samþykkt tillögunnar hér síðar í dag eru tímamót fram undan í samgöngumálum Vestfirðinga.

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála áherslum ríkisstjórnarinnar í því sem hér kemur fram, að brydda upp á því að framkvæmdir séu fjármagnaðar með greiðslum úr ríkissjóði á 25 árum, en lagt er til að hlutur ríkissjóðs í Vaðlaheiðargöngum og Suðurlandsvegi verði greiddur á 25 árum eftir að framkvæmdum lýkur. Því fylgir einfaldlega mun meiri kostnaður en væri ef ríkissjóður fjármagnaði þá framkvæmd eins og venja er. Við höfum ekki efni á því að fara þannig með opinbert fé. Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessari nýju leið sem ég tel ekki vera til bóta.

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja út í nefndarálit samgöngunefndar. Þar er talað um tvær framkvæmdir sem nefndin telur nauðsynlegt að meira verði gert í en fé er til í samgönguáætlun. Þar beinir nefndin því til samgönguráðuneytisins að það verði skoðað með tilfærslum milli liða í áætluninni, en um er að ræða viðbótarkostnað upp á 14 milljónir annars vegar og 2–4 milljónir hins vegar. Ég spyr: Hvaða liðir eru það í samgönguáætlun sem samgönguráðuneytið hefur svona frjálsar hendur með að það geti fært til fé? Ég hélt að samgönguáætlun væri ákveðin á Alþingi, þar væri fénu skipt á milli einstakra verkefna. Ég hélt að deilan um Grímseyjarferjuna hefði einmitt snúist um þetta, að Alþingi hafi sett ráðherra skorður sem hann fór svo út fyrir. Kannski er því öðruvísi varið í þessu máli, kannski er einhver liður í áætluninni sem menn eru að vísa til og ráðuneytið hefur undir höndum og getur fært til. Ég vildi gjarnan að það yrði þá upplýst þannig að ekki verði deilur um það síðar þegar þetta er allt um garð gengið.

Í öðru lagi spyr ég formann samgöngunefndar út í nefndarálitið en þar stendur:

„Nefndin beinir því enn fremur til samgönguráðuneytis að rannsóknarfé til jarðganga, bæði í þéttbýli og dreifbýli, verði aukið.“

Ég spyr, virðulegi forseti, er það ekki Alþingis að ákveða það? Hvar hefur samgönguráðherra djúpa vasa með peningum sem hann getur sótt í fé til að auka fé til rannsókna á jarðgöngum? Kannski er það að finna einhvers staðar í áætluninni, kannski er að finna einhverjar fjárhæðir sem er óráðstafað en þá væri rétt að fá það upplýst hér hvar þessa peninga er að finna. Ef þá er hvergi að finna held ég að nefndin verði bara að gera tillögur til þess að ná því fram sem hún fer fram á að ráðuneytið geri.