135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010.

519. mál
[14:01]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri það á þessum umræðum hér að það stefnir í fjörugar og skemmtilegar umræður í haust um samgöngur og er það vel. Þá eigum við vafalaust eftir að flytja margar ræður þegar við ræðum um samgöngumálin sem eru lengri en þessi tveggja mínútna ræða sem ég hef kost á að halda hér.

Áður en ég svara spurningu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi nefndarálitið vil ég geta þess að hún vakti athygli mína sú skoðun sem hann lýsti varðandi Sundagöng. Hann teldi að ekki ætti að fara þá leið sem oftast hefur verið nefnd vegna þess að hún væri svo miklu dýrari. Það vakti athygli mína, ekki síst í því ljósi að síðast þegar við vorum að ræða þessi mál hér á hinu háa Alþingi lýstu fulltrúar allra þingflokka yfir stuðningi við þessa leið þannig að kannski var hv. þingmaður að lýsa sinni persónulegu skoðun en ekki skoðun þingflokks frjálslyndra. Hann verður að eiga það við sjálfan sig.

Varðandi spurningarnar með nefndarálitið og þessar milljónir sem þar eru nefndar þá kom það fram í umsögnum og viðtölum Vegagerðarinnar á fundum nefndarinnar að það gæti verið hagkvæmt að flytja til fjármuni. Þetta eru framkvæmdir sem hefjast í sumar og þær gætu hugsanlega orðið ódýrari en gert er ráð fyrir í áætlun núna þannig að þar væri borð fyrir báru. Þess vegna er þetta orðað með þessum hætti í nefndarálitinu. Það stendur ekki til að fara að flytja til einhverja fjármuni hér án þess að Alþingi samþykki það en ég vona að þetta svari spurningu hv. þingmanns.