135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007–2010.

519. mál
[14:07]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Bara örstutt vegna ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þá vil ég fyrst segja varðandi tilmælin til samgönguráðuneytisins úr nefndaráliti að ég a.m.k. leit svo á að nefndin væri fyrst og fremst að senda skilaboð til ráðuneytisins vegna undirbúnings að endurskoðaðri samgönguáætlun. Þetta væru viðhorf af hálfu nefndarinnar um að hún vildi gjarnan sjá í þeirri tillögu sem kemur væntanlega fram á næsta þingi um endurskoðaða samgönguáætlun meiri áherslu á þetta mál. Mér finnst eðlilegt að það sé gert og að ráðuneytið taki það þá til eftirbreytni. Ef ráðuneytið gerir það ekki má væntanlega búast við því að nefndin taki til sinna ráða þegar hún fær þá áætlun til skoðunar.

Ég er síðan algjörlega sammála hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þegar hann fjallaði hér um svokallaðar einkaframkvæmdir í samgöngumálum, m.a. að því er lýtur að verkefninu Vaðlaheiðargöngum og fleiri þáttum. Ég er þeirrar skoðunar að það muni verða miklu dýrari leið fyrir ríkið þegar upp er staðið ef gera á samning t.d. til 25 ára, eins og talað hefur verið um, með einhverri arðsemi á fjármagn o.s.frv. Ég held að það verði miklu dýrari framkvæmd þegar upp er staðið. Ég geng út frá því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og þingflokkur hans styðji þær breytingartillögur hvað þá þætti áhrærir sem ég hef mælt hér fyrir.