135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[14:52]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við vinstri græn höfum marglýst stuðningi við þau áform iðnaðarráðherra að taka upp í lög tryggingu fyrir því að auðlindir sem nú þegar eru í almannaeigu verði það áfram. Við höfum hins vegar lýst verulegum áhyggjum og andstöðu við einstakar greinar þessa frumvarps, m.a. um uppskiptinguna og um söluna á Landsneti sem nú var samþykkt. Við höfum einnig lýst efasemdum við ákvæði frumvarpsins þar sem fjallað er um eignarréttinn á vatni.

Í meðförum nefndarinnar og meðförum þingsins hafa þessar efasemdir okkar því miður aukist vegna þess undansláttar sem meiri hlutinn hefur sýnt gagnvart kröfunni um frekari markaðsvæðingu. Allar okkar tillögur hafa verið felldar. Við getum því miður ekki lengur mælt með því að þetta frumvarp verði samþykkt. Við munum því sitja hjá við endanlega atkvæðagreiðslu og lýsa fullri ábyrgð á framtíð þessara mála á hendur ríkisstjórninni.