135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[14:56]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er lagt til að ríkissjóði verði heimilað að taka lán fyrir allt að 500 milljarða kr. á árinu 2008 eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Er annars vegar gert ráð fyrir að nýta megi heimildina til töku erlends láns í því augnamiði að styrkja gjaldeyrisforðann, hins vegar að nýta megi heimildina til aukinna útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði í þeim tilgangi að styrkja innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað.

Það ber að fagna fram komnu frumvarpi og að sjálfsögðu styð ég frumvarpið líkt og meiri hlutar efnahags- og skattanefndar og fjárlaganefndar hafa lýst yfir í sínum álitum.