135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[15:38]
Hlusta

Frsm. meiri hluta samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skal áréttað í þessum umræðum, af því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi skipulagsmálin, að hér er um gríðarlega flókið og að mörgu leyti erfitt verkefni að ræða. Þarna tókst samkomulag milli allra þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að málinu og ríkisins um að hafa þetta með þessum hætti og ég tel óvarlegt að fara að rugga þeim báti núna. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, þetta er óvenjulegt en ég tel engu að síður að þetta standist lög.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um ríkisstjórnina bendi ég hv. þingmanni á að málið kemur frá ríkisstjórninni, frá samgönguráðherra sem hefur kynnt það í ríkisstjórn. Ég geri því ráð fyrir að ríkisstjórnin hafi verið sammála málinu þegar það var lagt þar fyrir og vísað til þingsins.

Varðandi opinberu hlutafélögin tel ég að við þurfum að ræða betur í nefndinni og hér á Alþingi en við höfum gert almennt um þessi opinberu hlutafélög og setja þeim skýrari leikreglur og ramma en gert er í dag. Þegar sá rammi liggur síðan fyrir hlýtur hann að gilda um öll þau opinberu hlutafélög sem ríkið hefur stofnað í gegnum tíðina, hvort sem það eru Flugstoðir eða eitthvað annað. Eitt útilokar ekki annað í þessum efnum.