135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[16:00]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspurnina en ég verð að viðurkenna að þegar lögin ná ekki nema til samningagerðar þar sem samið er til lengri tíma en 20 ára — það kann að vera eitthvert ósamræmi í texta ef það hefur komið fram annars staðar að þar með sé þá óheimilt að gera samninga. Við þurfum að athuga það ef einhver villa kemur þar fram í samanburði á texta.

Eins og við takmörkum samningsgerðina hér, þ.e. við tölum eingöngu um lóðir, ákveðna stærð, og frístundahús á lóðum undir tveimur hekturum, þá er það með sama hætti svo að lögin eiga ekki að taka af alla heimild til samninga. Innan fjölskyldu geta verið samningar til skamms tíma og við erum ekki að fjalla um það. Það er ekki hugmyndin að lögin taki yfir það. Þar sem gerðir eru samningar og hafa verið gerðir samningar til 20 ára eða lengri tíma þá gilda lögin og það ákvæði átti að vera skýrt.

Varðandi framkvæmdir er það sömuleiðis þannig að ef þarna er um að ræða samninga sem hafa verið í gildi en koma nú til endurnýjunar þá gilda þessi úrskurðaratriði um þá. Það verður metið en tekið er sérstaklega fram í textanum að það verða að vera verulegar breytingar og það er falið úrskurðarnefnd eftir nánari skilgreiningum í lagatextanum hvað lagt skuli til grundvallar. Hér er því verið að tala um undantekningar. Það er líka ákvæði um að hafi leigutaki stofnað til einhverra framkvæmda á lóðinni án heimildar leigusala — gæti þess vegna hafa byggt heilt einbýlishús án þess að hafa hlotið til þess tilskilin leyfi — þá skuli það ekki vera metið og komið í innlausnarverð. En auðvitað er það útfærsluatriði varðandi úrskurðarnefndina og þess vegna sagði ég að það skipti mjög miklu máli að úrskurðarnefndin fengi faglega ráðgjöf frá aðilum sem unnið hafa að svipuðum málum til þess að allt fari vel fram (Forseti hringir.) og til að auðvelda málin.