135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[16:04]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þetta 3. gr.-ákvæði, þ.e. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson bendir á, þá stendur í a-lið:

„2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Óheimilt er að gera tímabundinn leigusamning um lóð undir frístundahús til skemmri tíma en 20 ára.“

Þetta ákvæði skil ég þannig að ef samningar í dag eru lengri en 20 ár þá gildi þessi lög og ef framlengja á þá samninga þá gildir 20 ára ákvæðið. Aftur á móti gildir heimildin sem ég var að tala um áðan um alla nýja samninga, þ.e. menn geta auðvitað gert nýja samninga á frjálsum markaði um hvaða lengd sem er. En ef menn hafa verið með langtímasamninga þá má ekki þvinga þá til að taka þriggja og fimm ára samninga í framhaldinu. Þannig túlka ég þetta og ég vona að það sé ekki ósamræmi í lögunum. Ef svo er þá skoðum við það og mun ég þá flytja breytingartillögu við 3. umr. en ég held að þetta ákvæði sé skýrt svona.