135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:11]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Frá því að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lá fyrir sl. haust hefur það komið fram hjá fulltrúum íslenskra stjórnvalda að það yrði tekið alvarlega og svarað með fullnægjandi hætti innan tilsetts tíma. Að því máli hefur verið unnið æ síðan. Vil ég leyfa mér að vekja athygli á eftirfarandi:

Íslensk stjórnvöld hafa falið þremur lögfræðingum, þeim Björgu Thorarensen prófessor, Karli Axelssyni, hæstaréttarlögmanni og dósent, og Arnari Þór Stefánssyni héraðsdómslögmanni að leggja fram mat á álitinu og tillögur um viðbrögð.

2. Álit nefndarinnar var þýtt á íslensku af íslenskum stjórnvöldum og kynnt.

3. Álitið var birt í tímariti sem nær til nær allra lögfræðinga hér á landi sem sýnir vilja stjórnvalda til að kynna niðurstöðu nefndarinnar.

4. Álitið var rætt æ ofan í æ á vettvangi Alþingis og stjórnvöld krafin svara.

5. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis hefur unnið að málinu, kallað fyrir sig fræðimenn og aflað gagna.

6. Mikil umræða hefur orðið á opinberum vettvangi um málið. Mér er til efs að finna megi dæmi af viðlíka tilefni að stjórnvöld annarra landa hafi brugðist svo ákveðið og markvisst við. Áhersla hefur verið lögð á það af okkar hálfu að vanda verkið vel enda er hér um að ræða mál sem snertir sjálfan grundvallaratvinnuveg okkar auk þess sem álitið sjálft kallar á vandasama umræðu.

Fyrir liggur að álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna gengur gegn niðurstöðum íslensks landsréttar samanber dóm Hæstaréttar í svokölluðu Vatneyrarmáli. Einnig liggur fyrir að Ísland viðurkennir bærni mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna til að komast að niðurstöðu um það hvort ákvæði samningsins hafi verið brotin eða ekki. Þess vegna verður að leita leiða til að koma til móts við niðurstöðu nefndarinnar. Þær aðgerðir verða þó að vera innan þeirra marka sem ákvæði stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, um vernd atvinnuréttinda, setja íslenskum stjórnvöldum. Ákvæði 3. mgr. 2. gr. SBSR hljóðar svo:

„Sérhvert ríki sem aðili er að samningi þessum tekst á hendur: (a) að ábyrgjast að sérhver maður sem hefur viðurkenndan rétt eða frelsi eins og hér er viðurkennt og brotið hefur verið á honum, skuli fá raunhæfar úrbætur, enda þótt skerðingin hafi verið framin af mönnum sem fara með stjórnvald.“

Í áliti mannréttindanefndarinnar í þessu máli er þess getið að þessar raunhæfu úrbætur skuli vera m.a. skaðabætur og endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Sá vandi sem íslensk stjórnvöld standa m.a. frammi fyrir er að ekki verður ráðið af áliti nefndarinnar hversu langt verði í raun að ganga til að um geti verið að ræða raunhæfar úrbætur. Auk framangreinds hljóta eftirfarandi sjónarmið að orka í þá veru að varlega sé stigið til jarðar og skemmri skref en ella tekin í því að breyta gildandi fiskveiðistjórnarkerfi. Viðteknar skoðanir standa til þess að fara varlega við rúma túlkun dóma og fordæmisgildi þeirra. Á slík varfærni ekki síður við þegar um er að ræða álit eins og í þessu tilviki þar sem ekki er samandregin niðurstaða í formi dómsorðs heldur almenn umfjöllun þar sem auk þess skortir á skýrleika um það hvað nákvæmlega er ætlast til að gert verði. (Gripið fram í.) Það er ljóst að umbylting íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins kynni að hafa gríðarleg áhrif á íslenskt efnahagslíf og að sumu leyti virðist vart vera hægt að vinda ofan af kerfinu, t.d. með innköllun kvóta til ríkisins, nema með því að ríkissjóður greiði öllum slíkum þolendum upp einhvers konar skaðabætur. Hér verður m.a. að hafa í huga að mjög stór hluti aflaheimilda hefur skipt um hendur frá upphaflegri úthlutun. Það væri þó ekki hægt að útiloka að ríkið gæti í þessum efnum byggt slíkar aðgerðir á 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða, en þar segir að úthlutun fiskveiðiheimilda samkvæmt lögum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Fyrir liggur enn fremur að eignarrétturinn eða atvinnuréttindi eru ekki vernduð sem sjálfstæð mannréttindi, The International Covenant on Civil and Political Rights, og því gætu þeir sem þyrftu að þola framangreinda skerðingu ekki leitað til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar gætu þeir snúið sér til Mannréttindadómstóls Evrópu með slík kæruatriði en að því gefnu að þeir fengju ekki kröfur sínar teknar til greina fyrir dómstólum á Íslandi. Það er þess vegna að ýmsu að hyggja þegar teknar eru ákvarðanir um breytingar eða umbyltingar á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Íslands kemur fram að gerð verði sérstök athugun á reynslu af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Í svari til mannréttindanefndarinnar mun íslenska ríkið lýsa yfir vilja sínum til að huga að lengri tíma áætlun um endurskoðun á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu eða aðlögun í átt að áliti mannréttindanefndarinnar. Ljóst er þó að slíkt gerist ekki í einu vetfangi enda mun nefndin hafa skilning á því að kerfi sem hefur mótast á áratugum er ekki hægt að umbylta á sex mánuðum. Þetta er langtímaverkefni og sérstökum vinnuhópi verður falið það. Að mati íslenska ríkisins standa ekki forsendur til þess að greiddar verði skaðabætur til viðkomandi kærenda. Slíkt gæti auk þess leitt til að fjöldi manns gerði skaðabótakröfur á hendur ríkinu sem fá í gildandi landsrétti ekki staðist, samanber dóm Hæstaréttar í Vatneyrarmálinu. Auk þess mundi í þessu felast viðurkenning í þá veru að allir sem eiga eða ákveða að kaupa skip með veiðileyfi ættu rétt til úthlutunar aflaheimilda. Þessi staða mundi í raun þýða að íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu væri kollvarpað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir stjórn fiskveiðiauðlindanna og vernd fiskstofna á Íslandsmiðum.