135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:30]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér mjög mikilvægt mál sem stjórnvöld hafa að sjálfsögðu tekið mjög alvarlega. Sérstök ástæða er til að hrósa hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, fyrir hans vinnu í þessu máli. Hann hefur m.a. fengið hæfa sérfræðinga til að skoða málið mjög gaumgæfilega. Íslensk stjórnvöld munu því svara mannréttindanefndinni innan frests og kalla eftir skýringum nefndarinnar á áliti sínu. Það skiptir miklu máli að hlutirnir séu alveg kristaltærir og því fullkomlega eðlilegt að kallað sé eftir viðbrögðum á því álitaefni sem hér er til umræðu.

Það er engum í hag, og allra síst þeim sem hafa lifibrauð sitt af sjávarútvegi, ef ráðist er í róttækar og óyfirvegaðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Kollsteypur eru ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og eru ekki heldur á stefnuskrá Samfylkingarinnar. Það ætti hins vegar ekki að koma neinum á óvart að jafnræði hefur ætíð verið rauður þráður í stefnu Samfylkingarinnar og slíkt þarf að vera tryggt í íslenskri löggjöf. Það á við um sjávarútveginn eins og annað.

En leiðirnar að markmiðinu, að bæði hagkvæmu og réttlátu kerfi, geta hins vegar verið afar mismunandi. Að sjálfsögðu ber okkur að hafa löggjöf sem bæði stenst íslensk lög og alþjóðalög, um það er ekki hægt að deila.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sérstaklega talað um að gerð verði sérstök athugun á reynslunni af aflamarkskerfinu við stjórn fiskveiða og áhrifum þess á þróun byggða. Sú athugun verður gerð sem hlýtur að vera sérstakt ánægjuefni fyrir þá sem hafa gagnrýnt þetta kerfi hvað harðast. Það er einnig afar mikilvægur punktur að ríkisstjórnin lýsir í dag yfir vilja sínum til að huga að áætlun til lengri tíma um endurskoðun á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, engin ástæða er til að gera lítið úr því.