135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:32]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna er álit, það er ekki úrskurður og þaðan af síður dómur. Að mínu viti er álitið sem slíkt frekar óljóst efnislega og erfitt er að átta sig á því nákvæmlega hve langt þarf að ganga til að mæta sjónarmiðum nefndarinnar. En auðvitað ber okkur að taka slíkt álit alvarlega, fara í gegnum það, virða það og reyna að finna leiðir til að mæta því.

Ef gerðar verða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu þarf að sjálfsögðu að gæta að rétti þeirra sem nú starfa í sjávarútvegi og þeirra sem stunda útgerð. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í þessu öllu að þjóðin sem heild njóti sem mests arðs af þeirri auðlind sem sjávarauðlindirnar eru. Það er grundvallaratriðið og lýtur að heildarhagsmunum.

En um leið og ég þakka málshefjanda þá umræðu sem hér fer fram þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann veitti hér. Hann upplýsti okkur um hvernig málið er statt og hvernig stjórnvöld ætla að svara því.

Sjávarútvegurinn er grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar og það vegur þungt hvernig haldið er utan um hann og það lagaumhverfi sem um hann gildir. Ef ráðist verður í breytingar til að mæta álitinu þarf að mínu viti að fara mjög varlega, alls ekki hrapa að niðurstöðum enda óljóst hvað felst í álitinu. Það verður að vanda til verka og ég hvet hæstv. sjávarútvegsráðherra til þess.