135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[16:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega ástæða til að fara yfir þetta frumvarp um frístundabyggð og gera grein fyrir athugasemdum sem fram komu um það frumvarp í meðförum þingnefndarinnar því að svo mikið ósætti var um það að fátítt er meðal hagsmunaaðila. Það er dálítið merkilegt að mál sem til var stofnað á sínum tíma til þess að greiða úr vanda sem menn þóttust sjá fyrir að væri fyrir hendi og eðlilegt að taka á í samskiptum milli landeigenda og sumarhúsaeigenda sem leigðu sér land undir bústaði sína.

Til þess var stofnað á sínum tíma árið 2006 með því að skipa starfshóp sem í sátu allmargir aðilar sem hagsmuna áttu að gæta og skiluðu af sér tilbúnu frumvarpi í febrúarmánuði 2007. Frumvarpið fékk nefndin afhent eftir nokkra eftirgangsmuni frá félagsmálaráðuneytinu og varð samkomulag um það á milli aðila, þ.e. landeigenda og sumarhúsaeigenda. Það merkilega í þessu er að félagsmálaráðherra vildi ekki samkomulagið. Hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafnaði samkomulaginu sem náðst hafði milli hagsmunaaðila og fulltrúa ráðuneytisins í þessu starfi og endaði með tilbúnu frumvarpi.

Ráðherra tók sér fyrir hendur einhliða, án samráðs við hagsmunaaðila — að minnsta kosti án samráðs við landeigendur — að breyta frumvarpinu í veigamiklum atriðum og leggja það fyrir Alþingi svo breytt. Ég verð að segja að ég er afar óánægður með framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og mér finnst að hæstv. félagsmálaráðherra eigi að vera hér við umræðuna og gefa Alþingi skýringar á framgöngu sinni, hvers vegna hún greip til þessa óyndisúrræðis að hunsa samkomulag sem fyrir lá í málinu. Ég fer fram á það, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra geri þinginu grein fyrir því hvað varð til þess að hún taldi sig knúna til að henda samkomulaginu sem fyrir lá út í hafsauga og breyta því í veigamiklum atriðum á þann veg að annar aðilinn gat ómögulega unað við það. Þingnefndin var sammála um það eftir að hafa farið yfir málið að svona væri ekki hægt að láta málin ganga fram. Hæstv. félagsmálaráðherra skuldar þinginu skýringu á því hvers vegna samkomulag er ekki virt og efnt og fylgt eftir með frumvarpi sem lá tilbúið á borði ráðherrans á síðastliðnu vori, í marsmánuði 2007. Það er ekki hægt að láta það óátalið hvað þá að láta ráðherrann komast upp með að gefa ekki skýringar á því hvers vegna hún gekk svo fram í þessu máli sem raun ber vitni.

Breytingarnar á frumvarpinu voru þess eðlis að menn ráku upp stór augu. Farið var að skoða málið og hægt er að vitna í nokkra aðila sem sendu þingnefndinni umsagnir sínar með mjög alvarlegum athugasemdum. Ég held að best sé að vísa til laganefndar Lögmannafélags Íslands. Það hlýtur að vera samdóma álit allra að sú nefnd sé mjög marktæk í umsögnum sínum og líklegt að hún sé mjög hlutlaus þegar hún fer yfir mál af þessum toga og gefur umsögn sína. Hún er ekki hagsmunaaðili. Í nefndinni sitja aðilar sem eru kunnugir á þessu sviði, lögfræðingar sem eru vel til þess bærir að leggja mat á innihald frumvarpsins. Það kemur fram í fyrstu orðum umsagnar laganefndar Lögmannafélags Íslands, með leyfi forseta, sem eru eftirfarandi:

Rétt er að hefja umsögn þessa á því að benda á að í greinargerð sem fylgir frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að gæta þurfi að mannréttindaákvæðum stjórnarskrár við setningu laganna. Sérstaklega eru síðan tiltekin ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd einkaréttar, bann við afturvirkni laga og félagafrelsi.

Svo kemur hér álit laganefndarinnar í örfáum orðum, virðulegi forseti:

Laganefnd telur afar ólíklegt að frumvarpið standist nefnd ákvæði stjórnarskrárinnar og því til viðbótar telur laganefnd frumvarpið brjóta gegn meginreglunni um samningsfrelsi.

Það var ekkert annað. Það er ólíklegt að frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrárinnar að minnsta kosti á þrjá vegu. Þegar menn lesa síðan útskýringar laganefndarinnar og rökstuðning kemur í ljós að það sem verið er að gera athugasemd við er fyrst og fremst það sem ráðherrann setti inn í málið en ekki það sem var í frumvarpinu og samkomulag var um.

Maður hlýtur hins vegar að vekja athygli á þeirri ríkisstjórn sem leggur fram svona frumvarp. Er kannski ekki liðinn tími þeirra — sem við heyrðum hér þinginu í gær að var einu sinni fyrir hendi — sem vilja þjóðnýtingu eða tími þeirra sem vilja eignaupptöku?

Þetta frumvarp, eins og ráðherrann lagði það fram með stuðningi ríkisstjórnarinnar, með stuðningi Sjálfstæðisflokksins, er í raun og veru — ég vitna til umsagnar annars aðila sem var beðinn um að skila umsögn og gerði það. Þar segir, með leyfi forseta:

Lögin eru einhliða lagasetning og í raun eignaupptaka á landi landeigenda með hagsmuni leigutaka að leiðarljósi. Ákvæði um einhliða framlengingu leigusamninga leiðir til framsals án samþykkis landeigenda og leyfi til veðsetningar án samþykkis er ekkert annað en tilfærsla á eignarrétti frá landeigendum til leigusala.

Það er nefnilega mat aðila að í frumvarpinu sé í raun og veru um eignaupptöku að ræða. Er sá tími ekki liðinn að landsmenn þurfi að óttast að fram komi pólitísk öfl sem vilja eignaupptöku? (Gripið fram í.)Að minnsta kosti lagði ríkisstjórnin þetta fram. En það er nefnilega alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að þessu var breytt í þingnefndinni. Þingið tók út vitleysuna, virðulegi forseti — ég afsaka nú þessa orðanotkun — sem ríkisstjórnin hafði sett inn í frumvarpið. Þingið hafði vit fyrir ríkisstjórninni. Ég hlýt að spyrja: Hvers konar ríkisstjórn er það, virðulegi forseti, sem lítur eignarréttinn þessum augum, að taka hann af mönnum í gegnum svona lagasetningu? Það er engu líkara en að ríkisstjórnin álíti að landnámi sé ekki lokið, að það sé hægt með einhverjum einstaklingsbundnum aðgerðum að endurskipa landi hér á Íslandi í gegnum svona frumvörp. Þingið verður að bregðast mjög hart við því og senda mjög skýr skilaboð um að það þýði ekki og stoppa það að menn feti sig áfram á þessari braut. Menn verða að virða þann grundvöll sem stjórnarskráin setur í þessum efnum. Þar tek ég undir, eins og ég sagði áðan, með hv. þm. Pétri H. Blöndal, að ég tel að þingnefndin hafi gert það.

En þá standa samt eftir verk ríkisstjórnarinnar og það er fullkomlega eðlilegt að gera kröfu til þess að hæstv. félagsmálaráðherra geri þinginu grein fyrir því hvers vegna hún lagði þetta til, hvers vegna ríkisstjórnin samþykkti þetta. Hvers vegna samþykktu sex ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þetta eignaupptökufrumvarp, virðulegi forseti? Við þurfum að fá skýringar á því.

Ég veit nú að Alþýðuflokkurinn var í gamla daga flokkur sem vildi þjóðnýtingu. Er farið að glitta í gamla Alþýðuflokkinn, virðulegi forseti, í þessari ríkisstjórn? Þetta er mikið alvörumál og það er ekki hægt að láta óátalda framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það verður að koma mjög skýrt fram að við þetta eru gerðar alvarlegar athugasemdir af hálfu þingsins.

Ég vil segja um málið sjálft að það er eðlilegt að setja lög um samskipti á milli leigutaka og leigusala enda var um það samkomulag, nefnd sem náði samkomulagi og skilaði því sem frumvarpi. Menn eru sammála um það. Bændur og aðrir landeigendur hafa hagsmuni af því að landið sé nýtt. Það eru þeirra hagsmunir að til sé fólk sem vill taka landið á leigu og borga afgjald fyrir það. Það eru því þeirra hagsmunir að leikreglurnar og löggjöfin séu þannig að það sé vilji og hvati til þess hjá einstaklingum að leigja sér land og nýta það sér til ánægju og dvalar. Þess vegna eigum við auðvitað að leitast við að svara óskum um löggjöf á þessu sviði.

Það er í hag landeigenda að löggjöfin sé þannig að þetta sé hægt, það séu skynsamlegar reglur og þeir hafi tekjur af þessu landi. Það er kannski út á það sem málið gengur. Í löggjöfinni eigum við að leitast við að gæta hagsmuna aðila þannig að báðir séu sæmilega sáttir við þá niðurstöðu sem þingið kemst að.

Það má segja að eftir miklar breytingar á frumvarpinu sem er lýst í nefndaráliti og framsöguræðu hv. formanns nefndarinnar þá er komið samkomulag. Aðilar eru sáttir að kalla. Landeigendur og sérstaklega ekki Bændasamtökin eru ekki alveg sátt, sérstaklega ekki við framgöngu ríkisstjórnarinnar. Þau eru ekki alveg sátt við þessa flóknu reglu sem búið er að teikna upp. En þau eru sátt að kalla sem þýðir, fyrir okkur sem viljum gæta að meðalhófi í þessu máli og feta það einstigi sem samkomulag getur sem best tekist um, að fyrir okkur er rétt að styðja við bakið á þessari niðurstöðu. Það gerum við þó með þeim fyrirvara sem kom fram í máli framsögumanns nefndarinnar, að það þarf að endurskrifa þetta þegar nokkur reynsla er komin á.

Þegar teiknaður er upp mjög flókinn ferill er hætt við því að í honum geti verið göt eða ágallar sem koma í ljós síðar en ekki voru fyrirséðir. Þess vegna er skynsamlegt að huga að því í raun og veru að endurskrifa þennan texta fljótlega og semja heillega löggjöf því að hún er auðvitað ekki heilleg þegar frumvarpið er tekið og því gjörbreytt í veigamiklum atriðum. Þá er það eins og stagbætt flík. Hún getur gert sitt gagn um einhvern tíma en það er ekki gott að láta hana vera til frambúðar.

Ég vil ítreka það sem ég spurði formann nefndarinnar um í andsvörum varðandi þau ákvæði sem leggur bann við því að tímabundinn leigusamningur geti verið til skemmri tíma en 20 ára. Þetta var ekki inni í samkomulagsfrumvarpinu í marsmánuði 2007 en það var komið inn í frumvarpið frá ríkisstjórninni, þá bann til 25 ára. Ég skildi það eins og formaður nefndarinnar að þetta bannákvæði ætti við um gömlu samningana. Hafi þeir verið til langs tíma þá má framlenging þeirra ekki vera til skemmri tíma en 20 ára. En mér sýnist hins vegar þegar ég fer að bera saman breytingartillöguna og frumtextann, að þetta þýði almennt bann við alla samninga. Það er eitthvað annað en ég hafði skilið að við værum að leggja til og ég heyri að formaður nefndarinnar er sammála mér um það. Hann lagði það heldur ekki til. Ég held því að við verðum að skoða þetta og gera á þessu viðeigandi breytingar milli 2. og 3. umr. þannig að það sé alveg ljóst að við erum ekki að banna landeiganda og sumarhúsaeiganda að semja til skemmri tíma en 20 ára. Ég vona að á því sé skilningur innan nefndarinnar og það geti tekist gott samkomulag um að lagfæra þennan texta.

Ég ætla, virðulegi forseti, ekki að fara frekar ofan í einstök atriði málsins. Ég hef komið sjónarmiðum mínum almennt á framfæri í þessu og í ljósi þess að ég tel nauðsynlegt að hafa leikreglur og að það er sátt að kalla um þessa útfærslu þá ætla ég að standa að því að greiða götu þess hér á Alþingi.