135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um frístundabyggð og menn hafa farið nokkuð yfir sögu málsins. Ég minni á afstöðu mína þegar þetta mál kom fram. Ég studdi mjög eindregið frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra og það er ekki rétt að fulltrúar allra flokka hafi viljað breyta frumvarpinu eða umturna því eins og hér var sagt áðan. Ég var fylgjandi þessu frumvarpi. Hins vegar kom á daginn að það var ekki sátt um það, hagsmunaaðilar, Bændasamtökin og ýmis samtök landeigenda voru mjög ósátt við frumvarpið og innan nefndarinnar var vissulega mjög hörð gagnrýni á það líka, eins og komið hefur fram við umræðuna. Nefndin brá þá á það ráð að breyta frumvarpinu og leita sátta á milli aðila. Það voru allir sammála um það og ég hygg að allir séu sammála um nauðsyn þess að setja lagaumgjörð um þessa starfsemi. Þetta er orðin atvinnugrein, að leigja land undir sumarbyggðir, og þetta er því öllum til hagsbóta, bæði landeigendum og að sjálfsögðu sumarbústaðaeigendum eða -leigjendum. Að þessari sátt var unnið undir forustu hv. formanns nefndarinnar, Guðbjarts Hannessonar, og ég tel að mjög vel hafi tekist til með þessa vinnu. Niðurstaðan liggur á borðinu og ég styð hana.