135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

frístundabyggð.

372. mál
[17:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að menn séu búnir að ganga fulllangt í vörn fyrir einkaeignarréttinn og hef verið talsmaður þess að hugsa til almannahagsmuna. Menn hafa verið að herða róðurinn í vörn fyrir einkaeignarréttinn á ýmsum sviðum og ég tel að í seinni tíð hafi almannaréttur verið um of víkjandi. Það er mitt sjónarmið.

Staðreyndin er sú að menn hafa notað einkaeignarréttinn til þess nánast að fjárkúga fólk eins og gerst hefur í ýmsum sumarbyggðum. Við fengum mjög margar sögur inn á okkar borð í félagsmálanefnd í umfjöllun um þetta mál og það er í vörn fyrir þetta fólk sem ég vildi ganga. En staðreyndin er sú að þegar á heildina er litið hefur sambandið á milli þeirra sem eiga landið og þeirra sem leigja það verið með ágætum. Þetta eru undantekningartilvik og frumvarpið eins og það var lagt fram var sett fram þessu fólki til varnar. En þetta er sagan og við getum farið í söguskoðun, það er alveg rétt og ekkert að því, en á borðinu liggur niðurstaða sem ég hygg að menn séu almennt sáttir við og það er vel.