135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:25]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar um frumvarp til laga um opinbera háskóla.

Nefndin hefur farið yfir málið og í nefndarálitinu er gerð grein fyrir þeim gestum sem komu á fundi nefndarinnar og jafnframt helstu atriðum sem rædd voru í nefndarstarfinu. Ég vil í þessari ræðu gera grein fyrir helstu breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það að í 1. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildissvið laganna. Fram kemur að lögin skuli ná til þeirra háskóla sem eru reknir sem opinberir háskólar og lúti yfirstjórn menntamálaráðherra. Í ákvæðinu eru ekki tilgreindir þeir opinberu skólar sem starfandi eru núna en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Fyrirhuguð er sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 37/2007. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum starfa á grundvelli laga nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis í frumvarpinu kemur fram að þau lög skuli endurskoðuð fyrir árslok 2009. Munu skólarnir tveir því starfa áfram á grundvelli þeirra laga.

Í máli ráðuneytisstjóra kom fram að ástæðan væri að skólarnir þyrftu aukinn tíma til að aðlaga sig breyttu lagaumhverfi. Því sjónarmiði var hreyft að eðlilegt væri að nöfn þeirra opinberu háskóla sem starfandi eru og frumvarpið tekur til yrðu tilgreind í ákvæðinu. Er það álit meiri hluta nefndarinnar að rétt sé að í 1. gr. komi skýrt fram hvaða háskólar starfi á grundvelli laganna. Með tilliti til sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sem taka á gildi 1. júlí 2008, telur meirihlutinn rétt að leggja til þá breytingu að nöfnum Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri verði bætt inn í 1. gr. frumvarpsins.

Af gefnu tilefni vil ég síðan nefna að eftir að lög um búnaðarfræðslu, sem ég vék að hér áðan varðandi Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum, hafa verið endurskoðuð og þessir háskóla uppfylla ákvæði laga um opinbera háskóla. Ég lít svo á að þá muni þeir að sjálfsögðu falla undir ákvæði þessa frumvarps. Verði það svo — og ég vil nefna það af gefnu tilefni eftir samræður mínar við hv. þm. Jón Bjarnason sem ég veit að hefur miklar skoðanir á þessu máli — þá tel ég að að þeirri endurskoðun lokinni sé augljóst að nöfn þessara skóla verði felld með lagabreytingu inn í 1. gr. laganna. Ég vil að þetta komi skýrt fram þannig að hv. þm. Jón Bjarnason hafi fullvissu fyrir því.

Töluverð umræða var innan nefndarinnar um 5. og 6. gr. frumvarpsins um hlutverk og skipan fulltrúa í háskólaráð. Með frumvarpinu er stjórn háskóla falin háskólaráði og rektor. Skal háskólaráð skipað sex fulltrúum auk rektors. Þar af er einn fulltrúi háskólasamfélagsins sem valinn er samkvæmt ákvörðun háskólafundar, einn fulltrúi nemenda, tveir fulltrúar frá menntamálaráðuneyti og tveir utanaðkomandi aðilar. Er hér um breytingu að ræða frá gildandi lögum um Háskóla Íslands þar sem stjórn skólans er einnig falin deildarfundum og deildarforsetum. Frumvarpið mælir fyrir um töluverðar breytingar á skipan fulltrúa í háskólaráð. Á það sér í lagi við um háskólaráð Háskóla Íslands sem nú er skipað tíu fulltrúum, þar af fjórum fulltrúum úr hópi ótímabundið ráðinna kennara, einum fulltrúa samtaka háskólakennara, tveimur fulltrúum skipuðum af menntamálaráðherra og tveimur fulltrúum stúdenta, auk rektors, sbr. 4. gr. laga nr. 41/1999.

Við Háskólann á Akureyri er háskólaráð skipað fimm fulltrúum, þar af tveimur fulltrúum, þ.e. kennurum sem ráðnir eru ótímabundið við skólann, einum fulltrúa stúdenta og einum fulltrúa frá ráðuneyti auk rektors. Þessi breyting á stjórn háskóla og skipan háskólaráðs var aftur á móti gagnrýnd af Háskóla Íslands, stúdentaráðum háskólanna og nemendafylkingum innan Háskóla Íslands. Telja þeir að fræðilega þekkingu muni skorta innan háskólaráðsins verði frumvarpið að lögum. Fulltrúar háskólasamfélagsins séu mikilvægur hlekkur við að gæta að hlutverki háskóla sem meðal annars er að sinna kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviði vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Enn fremur taki sú menntun sem háskólar veita mið af þörfum samfélagsins og geti verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Háskólar séu jafnframt miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi.

Háskólaráð hefur víðtækt hlutverk. Það er æðsti ákvörðunaraðli innan viðkomandi háskóla og hefur með höndum framkvæmdastjórn hans og stefnumörkun. Telur meiri hlutinn að þetta hlutverk ráðsins kalli eftir skilvirkni þess og að sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir á fjölda fulltrúa í ráðinu mundi auka hana. Að mati meiri hlutans verður jafnframt að lesa 6. gr. frumvarpsins með öðrum ákvæðum þess. Í 9. gr. frumvarpsins má sjá að háskólafundur er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fjallað er um og mótuð sameiginleg vísinda- og menntastefna háskólans, að frumkvæði rektors. Í 10. gr. frumvarpsins segir að meðal annarra sitji rektor, forsetar og formenn deilda háskólafund ásamt kennurum og sérfræðingum úr skólum og stofnunum háskóla, fulltrúum nemenda og fleiri. Lýðræðislega valdir fulltrúar háskólasamfélagsins, valdir af háskólafundi, ásamt rektor, eiga að tryggja að fræðileg þekking haldist innan ráðsins. Háskólaráð fer jafnframt með endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk. Telur meiri hlutinn að fjölmennt ráð í fámennum háskólum samrýmist illa því hlutverki þess, enda fær það til endurskoðunar og úrskurðar mál sem snerta stöðu starfsmanna og grunneiningar skólans að verulegu leyti.

Í frumvarpinu er kveðið á um að í háskólaráði sitji tveir utanaðkomandi aðilar. Í máli rektora Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri kom fram að mikilvægt væri að hafa slíka fulltrúa innan ráðsins til að efla tengsl við samfélagið. Er það álit meiri hlutans að slík breyting muni víkka sjóndeildarhring ráðsins og styrkja starfsemi háskóla út á við. Háskólasamfélagið og háskólarnir sjálfir eru að breytast og breyttir tímar kalla á aðra stjórnskipun en verið hefur innan skólanna. Álítur meiri hlutinn að gott aðgengi að hraðri þróun þekkingarsamfélagsins og öflug tengsl við atvinnulífið séu mikilvægur hlekkur í því að tryggja hagsmuni skólanna. Aftur á móti telur meiri hlutinn að mikilvægt sé að fræðileg þekking og tenging við starfsemi skólanna tapist ekki. Eigi slíkt sérstaklega við í fjölmennari skólum.

Leggur meiri hlutinn því til þá breytingu á 6. gr. að í háskólum með fleiri nemendur en fimm þúsund verði fulltrúum háskólasamfélagsins fjölgað í tvo, fulltrúar nemenda verði tveir, líkt og nú er, og fulltrúar tilnefndir af menntamálaráðherra verði fjórir. Er það álit meiri hlutans að þannig séu lýðræðishefðir Háskóla Íslands virtar og styrkum stoðum skotið undir fræðilega þekkingu innan háskólaráðsins. Með þessu móti telur meiri hlutinn að komið sé til móts við þær kröfur sem fulltrúar Háskóla Íslands og stúdentar settu fram. Meiri hlutinn telur að með þessum breytingum á ákvæðum frumvarpsins skapist þéttari og fjölmennari eining innan háskólaráðsins sem hafi góða tengingu við fræðilega og faglega starfsemi innan skipulagseininga háskólans. Meiri hlutinn undirstrikar að sú skipan sem 6. gr. frumvarpsins kveður á um henti vel fámennari skólum. Með því að halda óbreyttu fyrirkomulagi um skipan háskólaráðs í þeim háskólum sé tryggð skilvirkni ráðsins, eftirlits- og úrskurðarvald þess eflt sem og tengsl háskólanna við samfélagið og atvinnulífið styrkt.

Að lokum, herra forseti, vil ég nefna það að í 24. gr. frumvarpsins er fjallað um fjármögnun háskóla. Mikil umræða fór fram innan nefndarinnar um þetta ákvæði frumvarpsins og hélst í hendur við umræðu um samkeppnisaðstöðu opinberra háskóla við einkarekna háskóla. Í greininni er kveðið á um heimild háskóla til að innheimta skrásetningargjöld af nemendum, allt að 45.000 kr. á ársgrundvelli. Enn fremur veitir greinin háskólum heimild til að taka gjöld fyrir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa, þjónustu sem háskóli veitir samkvæmt samningi við menntamálaráðuneytið sem og fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning.

Í 4. mgr. greinarinnar kemur enn fremur fram að háskólaráð geti gert tillögu til ráðherra um breytingar á skrásetningargjöldum. Töluverð umræða hefur verið um þetta ákvæði frumvarpsins og kom fram það sjónarmið á fundum nefndarinnar, einkum frá fulltrúum stúdenta, að með ákvæðinu væri verið að opna leið fyrir opinbera háskóla til að auka gjaldtöku skólanna og innheimta skólagjöld af nemendum. Í máli rektors Háskóla Íslands kom aftur á móti fram að hann túlkaði ákvæði frumvarpsins ekki með þeim hætti og í umsögn viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands kom fram að deildin harmaði beinlínis að ekki skyldi í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að einstakar deildir gætu ákveðið að innheimta skólagjöld af nemendum sínum. Af hálfu rektors Háskóla Íslands var upplýst að háskólaráð hefði í gegnum tíðina óskað eftir hækkun skrásetningargjalda. Í máli nemenda kom aftur á móti fram að mikil andstaða væri við skilgreiningu skrásetningargjaldsins og 4. mgr. 24. gr. og töldu þeir að síðargreinda ákvæðið fæli einungis í sér hvatningu til háskólaráðs til að leita eftir hækkun gjalda.

Meiri hlutinn telur að með lögfestingu 24. gr. frumvarpsins sé alls ekki — og ég vil endurtaka það — alls ekki verið að heimila töku skólagjalda við opinbera háskóla. Gjaldið sé í eðli sínu þjónustugjald, samanber álit umboðsmanns Alþingis í máli frá árinu 1993, sem m.a. er ætlað að mæta útgjöldum vegna skráningar og ýmiss konar þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknarstarfsemi. Undirstrikar meiri hlutinn þann skilning sinn að ekki sé um nýjar eða auknar gjaldtökuheimildir að ræða í frumvarpinu. Þá áréttar meiri hlutinn sérstaklega að hækkun skráningargjalda við opinbera háskóla verður ekki ákveðin nema með samþykki Alþingis, umfram það hámark sem tilgreint er í a-lið 2. mgr. 24. gr. Aftur á móti telur meiri hlutinn rétt að taka undir sjónarmið nemenda að hluta og leggur til að 4. mgr. 24. gr. frumvarpsins verði felld brott úr frumvarpinu.

Herra forseti. Hvað aðra þætti þessa nefndarálits varðar vísa ég í það sem þar kemur fram. Mér þótti hins vegar mikilvægt að tilgreina nokkuð nákvæmlega þessi þrjú atriði sem hér voru nefnd, þ.e. athugasemdir meiri hluta nefndarinnar við 1. gr., 5. og 6. gr. og brottfellingu 4. mgr. 24. gr.

Þar að auki leggur meiri hlutinn jafnframt til aðrar breytingar á frumvarpinu, flestar smávægilegar, sem einkum varða lagatæknileg atriði. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita sá sem hér stendur og hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Illugi Gunnarsson, Guðbjartur Hannesson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Katrín Júlíusdóttir, sem skrifar undir þetta álit með fyrirvara er lýtur að skipan háskólaráðs. Hv. þm. Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara er lýtur að skipan háskólaráðs.